Nemendaþing

Síðastliðinn föstudag var haldið nemendaþing þar sem nemendur unnu í hópum þvert á aldur í lausnaleit á vanda tengdum frímínútum innanhúss. Verkefnið var að finna leiðir til að minnka hávaða og hlaup í miðrými og matsal, auk þess hvernig best væri að skipuleggja frímínúturnar svo allir fái eitthvað við sitt hæfi.

Í hverjum hópi var fundarstjóri, ritari, tímavörður og ráðgjafi. Elstu nemendurnir voru fundarstjórar og sáu til þess að allir fengju að tjá sig, tímavörður sá til þess að umfjöllun um hverja spurningu sem hóparnir þurftu að leita svara við færi ekki yfir 4 mínútur, ráðgjafi gaf ráð og ritari sá um að skrá niðurstöður hópsins.

Að hópastarfi loknu komu allir saman í miðrými þar sem farið var yfir niðurstöðurnar, þær skráðar og ræddar.  Helstu niðurstöður voru þær að hver hugsi um sig þegar kemur að hávaða, hjálpast að við að minna hvert annað á, eldri nemendur eru fyrirmyndir fyrir þau sem yngri eru og sýna það með kurteisi, þroska og jákvæðni. Einnig skal ganga um skólann í stað þess að hlaupa, þar sem það getur skapað hættu fyrir unga sem aldna. Þá voru allir hópar á þeirri skoðun að meiri afþreyingu vantaði í frímínútur, t.d fleiri spil og afmörkuð svæði. Nú er búið að útbúa næðisherbergi fyrir þá sem vilja lesa og verið er að safna saman hugmyndum að alls kyns spilum sem hægt er að setja upp á vissum svæðum.

Svona nemendaþing eru góð leið fyrir nemendur til að finna lausnir á vanda en ekki síður til að koma skoðunum sínum á framfæri.