Í gær var Öxarfjarðarskóli settur og í dag komu nemendur á fyrsta kennsludag þessa skólaárs. Ekki var laust við að spenningur væri í hópnum enda alltaf gaman að koma saman, hitta vinina og hefja námið.
Nemandi í 5. bekk, Árdís Laura Árnadóttir, færði skólanum bókagjöf í morgun en hún tók þátt í smásagnasamkeppni í fyrra og sagan hennar "Vorsaga" hlaut sess í útgefinni bók sem heitir RISAstórar smáSÖGUR. Við erum að sjálfsögðu afar stolt af henni og vonum að hún haldi áfram að skapa og semja sögur.
Búið er að koma upp hluta af rólunum sem teknar voru niður í fyrra og yngri deildar kennarar tóku sig saman og byggðu lítið útieldhús sem nemendur eiga eflaust eftir að leika sér í.
Eins og margoft hefur áður komið fram, eigum við góða bakhjarla í kvenfélögunum okkar. Kvenfélag Keldhverfinga gaf skólanum tvö körfuboltastatíf og körfur sem settar voru niður þar sem þær gömlu voru áður. Við þökkum innilega fyrir góða gjöf sem á eftir að nýtast vel. Það er mikilsvert að skólalóðin sé aðlaðandi og fjölbreytt og hafi einhverja afþreyingu að geyma fyrir börnin.
Við hlökkum til komandi vetrar!