Síðustu vikur höfum við verið með sundkennslu til að ljúka skyldunni fyrir skólaárið og sundlaugin í góðu standi. Oft hefur það gengið brösótt en núna hefur verið hægt að halda áfram nánast án þess að rof verði á kennslu og framfarir nemenda sýnilegar frá degi til dags sem er afskaplega gleðilegt. Veðurspá næstu viku ætlar að bjóða upp á jafngott, ef ekki bara enn betra veður og við höldum ótrauð áfram alveg til 19.maí en þá er jafnframt síðasti kennsludagur í skólanum.
Háskólalestin fer reglulega út á land til að kynna starfsemi Háskóla Íslands með litlum námskeiðum í nokkrum fögum og setur það í búning fyrir grunnskólanemendur. Að þessu sinni bauðst mið-og unglingadeild Öxarfjarðarskóla að taka þátt ásamt skólunum austan við okkur; Grunnskólanum á Þórshöfn og Vopnafjarðarskóla. Lagt var af stað í bítið í gærmorgun þar sem dagskrá átti að hefjast um kl. 9:00.
Við fengum góða heimsókn sl miðvikudag frá Grunnskólanum á Þórshöfn. Þar voru á ferðinni 18 nemendur nemendur 4. -7.bekkja til að taka þátt í skákmóti hjá okkur en nemendur úr mið- og unglingadeild Öxarfjarðarskóla tóku þátt. Tefldar voru 4 umferðir og stóðu nemendur úr báðum skólum sig vel. Að lokum var farið í hópefli og úr þessu var virkilega skemmtileg samvera.