Fréttir

Aðalbjörn í­ 3. sæti í­ stærðfræðikeppni

Fjölbrautarskólinn á Húsavík bauð nemendum grunnskólanna í Þingeyjarsýslum til stærðfræðikeppni. Undankeppni fór fram fyrir páska í grunnskólunum og tóku 29 nemendur úr 5 skólum þátt í henni. Sl. laugardag kepptu 10 efstu úr undankeppninni til úrslita í FSH. Við áttum þarna tvo fulltrúa, þau Aðalbjörn og Ke. Aðalbjörn náði þeim frábæra árangri að verða í 3. sæti. Við erum ákaflega stolt af honum og óskum honum til hamingju með árangurinn.

Handverkssýning á Kópaskeri

Á sumardaginn fyrsta hefur sú hefð skapast að vera með samsýningu á handverki eldri borgara af svæðinu og nemenda við skólann á Kópaskeri. Erla Kristinsdóttir á heiðurinn af þessu framtaki og hefur sýningin alltaf verið hin veglegasta.

Síðast liðinn fimmtudag var sýning á verkunum og var margt glæsilegra hluta að sjá. Komu fjölmargir að líta á afrakstur vetrarins og þáðu kaffi og meðlæti sem var í boði foreldrafélags Öxarfjarðarskóla, verslunarinnar Bakka og Íslensk-Ameríska.

Myndir af munum eru hér og vonandi bætast bráðlega við fleiri myndir af verkum eldri borgaranna og frá sýningunni sjálfri.

Opnun Gljúfrastofu

Nemendur skólans voru í stóru hlutverki í gær þegar Gljúfrastofa var formlega opnuð. Yngri nemendur skólans sungu frumsamið lag Guðrúnar S. K. um tröllaskoðun í þjóðgarðinum og sögðu frá tröllasögum sínum og tröllunum sem þau gerðu úr steinum. Einar, Aðalbjörn, Baldur, Friðbjörn, Kristveig og Íris úr unglingadeild fóru með ýmsa texta um þjóðgarðinn og sögðu frá þjóðgarðsskólaverkefninu. Síðan klipptu Hlynur Aðalsteins, Lillý Óla og Bjarni Þór, ásamt umhverfisráðherra, á borðann inn í "hlöðuna" þar sem sýningin er.

Myndir frá opnuninni eru hér.

Söfnun fyrir Barnahjálp ABC

Í ár tók skólinn að venju þátt í verkefninu Börn hjálpa bórnum. Nemendur miðdeildar gengu í hús núna í mars og söfnuðu framlögum fyrir ABC Barnahjálp. Afraksturinn, 25.354 kr. fóru inn á reikning ABC. Þessir peningar eiga eftir að koma sér vel fyrir munaðarlaus og þurfandi börn í Pakistan, Kenya og Úganda.