Fréttir

Danmerkurferð 9. og 10. bekkjar

Hópurinn í Íslendingahorninu á Hviids Vinstue
Nú er nýlokið skólaferðalagi 9. og 10. bekkjar til Danmerkur.
Flogið var út um miðjan dag þann 8. júní og lent í Danmörku rétt fyrir kl 20 að dönskum tíma.
Fyrsta kvöldið borðuðum við sameiginlega með Raufarhafnarskóla á pizzastað við Strikið en þau fóru út með sömu vél og við.
Næstu dagar fóru í skoðunarferðir um Kaupmannahöfn og Tívolíferð en á miðvikudagsmorgun fórum við í heimsókn til vinabekkjar í Hedegårdskolen í Ballerup.
Við vorum að mestu heppinn með veður. Það var ekki mikil sól en við sluppum að mestu við rigningu nema eftir hádegi á fimmtudegi. Þá lentum við í þvílíku úrhelli að við aflýstum frekari skoðunarferðum þann daginn og fórum því ekkert að skoða fornar Íslendingaslóðir. Í staðinn var stefnan sett í menningarreisu í verslunarmiðstöðina Fields. Það rigndi svo látlaust það sem eftir var dags og fram á nótt. Nokkrir úr hópnum létu það þó ekki aftra sér frá því að skella sér í fótbolta út í rigninguna um kvöldið, enda mátti halda að þeir hefðu skellt sér í sundsprett í einhverjum pollinum í kring þegar þeir komu inn.
Föstudagsmorgun var síðan haldið beint út á flugvöll og flogið heim. Nemendur voru sér og skóla sínum til sóma eins og ávallt og var það þreyttur en ánægður hópur nemenda og kennara sem komu heim.

Smellið á einhvern tenglanna hér að neðan til ða skoða myndir úr ferðinni.

Dagur 1
Dagur 2
Dagur 3
Dagur 4

Skólaferðalag 7. og 8. bekkjar

Mynd af heimasíðu Kópaskersskóla7. og 8. bekkur skólans fór ásamt 7, bekk Kópaskersskóla í skólaferðalag þann 3. og 4. júní.  Bílstjóri og fararstjóri var Rúnar Óskarsson og stóð hann sig að venju frábærlega. Honum til aðstoðar voru Kiddi, Maggi og Ingibjörg, auk þess sem Jóhanna Margrét kom með sem okkar sérlegur aðstoðarmaður og var yndislegt að hafa hana með.

Við byrjuðum á að skoða Æðarfossa við ósa Laxár. Höfðu færst okkar nokkru sinni komið þar áður og var gaman að sjá þetta fallega umhverfi. Næst fórum við í Iðnaðarsafnið á Akureyri. Það var gaman að sjá hversu mikið af allskonar vörum voru framleiddar á Íslandi, og þá sérstaklega Akureyri, hér áður fyrr. Þetta er eitthvað sem við þurfum að gera aftur núna í kreppunni. Eftir Iðnaðarsafnið var haldið í Kjarnaskóg þar sem nesti var snætt og nokkurri stund eytt í leiktækjum í góða veðrinu. Því næst var haldið í Akureyrarlaug í sund. Stefnan var svo tekin á Bakkaflöt í Skagafirði þar sem við gistum í góðu yfirlæti og var boðið upp á dýrindis pizzahlaðborð um kvöldið.

Á fimmtudeginum var dagurinn tekinn snemma, ræs kl 8 og farið í siglingu á Jökulsá Vestari. Eftir skemmtilega siglingu í góðu veðri var farið í pottana á Bakkaflöt til að ylja sig upp en síðan var haldið á Akureyri í keilu og bíó.

Það var ekki að sjá annað en að krakkarnir hefðu skemmt sér vel saman og verið ánægð með ferðina. Því miður gleymdi vefstjóri myndavélinni heima en hér að neðan eru tenglar á myndirnar sem Maggi tók.

Dagur 1 - Dagur 2

Skólaferðalög

Á morgun, 3. júní fara 7. og 8. bekkur í skólaferðalag. Farið verður til Akureyrar og í Skagafjörð í gúmbátasiglingu.

Nú er farið að styttast í Danmerkurferð 9. og 10. bekkjar. Það verður flogið út nk mánudag 8. júní. Fjáröflun fyrir ferðina hefur gengið vonum framar og hefur safnast fyrir nær öllum fyrirséðum kostnaði.
 
Kvenfélögin þrjú við Öxarfjörð styrktu ferðina um 30.000 kr hvert. Við viljum þakka þeim kærlega fyrir það.

Eins viljum við koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu krökkunum lið í söfnuninni í vetur og ekki síður þeim sem gert hafa ferðina mögulega með því að leggja pening í hana. Dúddi fær sérstakar þakkir fyrir rausnarlegt framlag.

Enn eiga einhverjir eftir að borga, bæði klósettpappír og í kleinu- og snúðasölu. Það væri afskaplega gott að viðkomandi gætu lagt inn sem allra fyrst, í síðasta lagi fyrir helgi.

Reikningsnúmer Danmerkursjóðs
567-14-400125
260469-5689