Fréttir

Ýmsar fréttir frá skólastarfinu

http://oxarfjardarskoli.nordurthing.is/myndir/gallery/Vetur_10-11/september/ymislegt_005.JPGSkólastarfið gengur enn vel þrátt fyrir fjarveru Guðrúnar skólastjóra.

Veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga og hafa nemendur verið duglegir að fara út og njóta náttúrunnar. Það eru viss forréttindi að þurfa ekki annað en að ganga fyrir húshornið til að komast í ber í frímínútum og eru börnin að skila sér inn berjablá og sum jafnvel með ber í dollu. Steini og Conny hafa nýtt góða veðrið til útiveru í íþróttatímunum og þau hafa verið með sundkennslu á mánudögum sem mun standa eitthvað fram á haustið.

Kolla verður hjá okkur í afleysingum fram eftir hausti. Henni er víkingatíminn hugleikinn og hefur hún verið að lesa Hrafnkels sögu með 8. og 9. bekk og á miðstigi hefur hún verið að kynna þennan forna menningararf við mikinn áhuga nemenda.

Öxarfjarðarskóli hefur gerst aðili að þróunarverkefni ásamt þremur nágrannaskólum sem unnið er í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Hinir skólarnir eru Grunnskólinn á Raufarhöfn, Borgarhólsskóli og Hafralækjarskóli. Þetta verkefni er til  tveggja ára og kallast  Byrjendalæsi. Þetta er spennandi verkefni sem Ann-Charlotte, Gunna Magga og Vigdís taka þátt í fyrir hönd skólans.

Lengd viðvera hefst í næstu viku, þriðjudaginn 14. september. Skólabílar fara þá frá Lundi kl. 16 á þriðjudögum til fimmtudögum en á hefðbundnum tíma á mánudögum og föstudögum (14:40 og 12:00).

Við viljum minna á að æskilegt er að nemendur frá fjórða bekk og upp úr séu með innanhússkó fyrir íþróttatíma til að forðast meiðsli.

Við stefnum á að halda almennan foreldrafund mánudaginn 20. september. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.

Að lokum er hér hlekkur á nokkrar myndir frá starfinu það sem af er skólaárinu.