Fréttir

Jólapistill

http://oxarfjardarskoli.nordurthing.is/myndir/gallery/Vetur_10-11/litlu_jol/IMG_0414.JPGKæru foreldrar og forráðamenn.
Þann 16. desember voru litlu jólin haldin í Öxarfjarðarskóla. Leikskóladeildirnar báðar og grunnskóladeildin sameinuðust. Hátíðin okkar tókst vel og ungir sem aldnir skemmtu sér. Hátiðarverður var í hádeginu, borðað var hangikjöt og ís í eftirrétt. Elstu nemendur grunnskólans tóku að venju að sér yngstu nemendur grunnskólans og eldri leikskólanemendur og aðstoðuðu þau á meðan á borðhaldi stóð. Umsjónarkennarar lásu jólasögur fyrir nemendur sína og pökkum var deilt. Starfsmenn, nemendur og foreldrar dönsuðu kringum jólatréð og Grýla, Leppalúði og jólasveinanir komu í heimsókn og vöktu mikla kátínu, blandna að vísu hjá sumum af þeim yngstu. Hefðbundinn mars var stiginn um húsið og ljúffengar veitingar í lokin.
 
Starfsdagur er hjá öllum deildum Öxarfjarðarskóla 3. janúar. Það er því hvorki leikskóli eða grunnskóli þennan dag.
Skóli byrjar aftur, samkvæmt stundaskrá, 4. janúar 2011. Skólabílar leggja af stað á hefðbundnum tímum, frá Fjöllum kl. 7:40 og Kópaskeri kl. 7:45.
 
Gleðilega hátíð og sjáumst á nýju ári.
Kær kveðja,
Guðrún S. K

Litlu jól

Á morgun, fimmtudaginn 16. desember verða litlu jólin haldin í skólanum. Þetta verður um leið aðaljólaballið hér á svæðinu okkar þetta árið fyrir öll börn skólasvæðisins einnig þau sem eru ekki í leik- eða grunnskólanum. Öðrum áhugasömum er velkomið að mæta, hvort sem eru foreldrar, afar og ömmur, systkini og hverjum öðrum sem vilja gleðjast með börnunum og dansa í kringum jólatré. Heyrst hefur að við getum jafnvel átt von á sveinum ofan af fjöllum.

Kaffi og smákökur verða í boði.

Skemmtunin hefst um kl 14:30 og stendur til kl 16.

Lúsí­uhátí­ð

Í dag var tekið smá forskot á jólastemninguna hér í skólanum. Sú skemmtilega hefð hefur skapast hér síðustu árin að halda upp á Lúsíudaginn að sænskum sið. Það var með Önnu Englund og hennar börnum sem þessi venja komst á hér. Það var hún Lotta Englund sem hafði veg og vanda að Lúsíuhátíðinni þetta árið ásamt áhugasömum nemendum, en Bryndís Edda var sjálf Lúsía.

Eftir morgunmat komu allir saman í gryfju og sungu 5-6 jólalög undir harmoníkuundirleik Björns Leifssonar en á meðan undirbjó Lotta Lúsíuhópinn. Hópurinn kom svo fram og söng hefðbundin Lúsíulög og útdeildu saffranbrauðum.

Eftir hádegi var svo föndurstund hjá okkur. Það voru nokkrar föndurstöðvar sem nemendur gátu farið á milli, jólakortagerð, kransagerð, ullarþæfing og kertagerð. Foreldrar og aðrir ættingjar voru velkomnir eins og áður og voru nokkrir sem nýttu sér að koma og eiga föndurstund með börnunum.

Myndir frá deginum

Upplýsingar um Lúsíuhátíðina af jólavefnum

Smá fróðleikur og textar á sænsku, norsku og dönsku af vef Norræna félagsins