Fréttir

Fréttakorn frá Öxarfjarðarskóla

Nú er fjórða vikan senn á enda og ýmislegt hefur verið starfað í skólanum. Flutningar eru að hefjast hjá kennurum yfir í betra rými, þar sem við höfum nú fengið íbúðina fyrir vinnuaðstöðu. Þá munu unglingar fá eigið herbergi til afnota þar sem kennarastofan var.

Íþróttakennslan hefur eingöngu farið fram utandyra vegna lagfæringar á íþróttahúsi og hefur ýmislegt verið tekið fyrir. Má þar nefna nokkurskonar “Boot Camp” æfingar þar sem nemendur eru í strangri þjálfun undir stjórn Þorsteins og vita fátt skemmtilegra en að fá að skríða á jörðinni í bland við magaæfingar ofl. Þá hefur körfuboltinn verið talsvert æfður sem og aðrar hefðbundnar íþróttir.   Hávaðarok hefur verið undanfarna daga og þá eru góð ráð dýr þegar ekki er hægt að flýja inn! Það gerði það að verkum að nemendur eru m.a. búnir að læra að sippa í 20 metrum á sekúndu. ;)

Matseðill

Matseðil mötuneytis fyrir næstu fimm vikur er nú hægt að finna í valmyndinni hér til vinstri, undir Mötuneyti. Framvegis munu matseðlar verða birtir þar jafnóðum og þeir eru tilbúnir hjá matráði.

Fréttir af foreldrafundi

Þær voru með framsögu á fundinumÍ gær var haldinn fundur með foreldrum og starfsfólki í Öxarfjarðarskóla. Þetta var góður fundur og ánægjulegt að sjá hve margir foreldrar sáu sér fært að mæta. Ýmislegt var á dagskrá og margt rætt, en þetta var kærkomið tækifæri fyrir foreldra að spyrja út í starfið hjá okkur í vetur. Nýtt starfsfólk var kynnt og einnig þær breytingar og hugmyndir sem upp hafa komið varðandi heildstæðan skóla sem farið verður af stað með í byrjun október.

Samkvæmt nýjum grunnskólalögum eru foreldra- og kennararáð lögð niður, en í þeirra stað á að stofna skólaráð og var gengið frá því á fundinum. Það verður komið nánar að því hér neðar.

Foreldrar voru fjölmennir á fundinumEinnig þurfti að stofna nýtt foreldrafélag þar sem skólarnir hér eru orðnar aðskildar stofnanir. Ákveðið var að hafa svipað fyrirkomulag og byrjað var með í fyrra, að í 5 manna stjórn yrðu fulltrúar fyrir hvert stig skólans, einn fyrir leikskólastig, einn fyrir yngsta stig, einn fyrir miðstig og tveir fyrir unglingastig, þ.e. einn fyrir 8. og 9. bekk og einn frá foreldrum 10. bekkinga. Nöfn fulltrúanna verða birt hér á síðunni um leið og allir sem tilnefndir voru hafa gefið samþykki sitt fyrir setu í stjórninni.

Erla Óskars reiddi fram dýrindis veitingar í hléi en að því loknu bauðst foreldrum að hitta kennara í þeirra stofum til frekara spjalls.

Var ekki annað að sjá en almenn ánægja væri meðal foreldra og starfsfólks með fundinn og er athugandi að gefa foreldrum oftar færi á að hittast sem hópur með umsjónarkennurum sinna barna.

Skólaráð

Samkvæmt nýjum grunnskólalögum hefur foreldra- og kennararáð verið lagt niður en í stað þess skal kosið Skólaráð við alla skóla.
Í grunnskólalögunum segir m.a.
“Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.
Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd, sbr. 6. gr., getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.
Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra, auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Auk þess skal skólastjóri boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári.”
Fulltrúar nemenda skulu eiga kost á að taka þátt í umræðum skólaráðs þegar fjallað er um velferðar- Fólk gæddi sér á veitingum og spjallaði samanog hagsmunamál nemenda.

Í skólaráði eru:
Guðrún Sigríður Kristjánsdóttir, skólastjóri
Hrund Ásgeirsdóttir, kennari og staðgengill skólastjóra
Guðrún Margrét Einarsdóttir, sérkennari
Elisabeth Hauge, deildarstjóri leikskóla
Ágústa Ágústsdóttir, Garði Kelduhverfi
Geir Bjarnason, Kópaskeri
Guðríður Baldvinsdóttir, Lóni Kelduhverfi

Fundur með foreldrum og forráðamönnum

Við boðum til fundar næstkomandi þriðjudagskvöld 9. ágúst í Lundi kl. 20:00

Aðalumræðuefnið verður skólastarfið í vetur og kynning á heildstæðu skólastarfi.

Stofna þarf nýtt foreldrafélag og vegna breytinga á grunnskólalögum er foreldraráð og kennararáð lagt niður en þess í stað stofnað skólaráð sem nánar verður kynnt á fundinum.

Vonum að allir sjái sér fært að mæta og spjalla yfir kaffibolla um vetrarstarfið og eiga góða kvöldstund með okkur. 

 

Kærar kveðjur,

Guðrún S. Kristjánsdóttir og
Hrund Ásgeirsdóttir