Fréttir

Haustgleði

Ke klædd samkvæmt hátískunniFimmtudagskvöldið sl. hélt Öxarfjarðarskóli haustgleði. Þetta er orðin árlegur viðburður, sem hófst með vorgleði en vegna ýmissa anna á vorin var ákveðið að flytja viðburðinn yfir á haustið. Það eru nemendur í unglingadeild ásamt 7. bekk sem bera hitann og þungann af undirbúningi og utanumhaldi á þessari skemmtun og er þetta liður í þeirra fjáröflun. Einnig hafa kennarar stutt duglega við bakið á þeim. 

Auglýsingum hefur verið dreift á póstburðarsvæðið frá Kelduhverfi og út á Sléttu og gaman að sjá hversu margir koma sem ekki eiga börn í skólanum. Þátttaka hefur vaxið á hverju ári og í ár var þéttsetinn matsalurinn í Lundi. 

Samskólamót á Þórshöfn

Á föstudaginn var samskólamót skólanna hér í norðursýslunni haldið á Þórshöfn. Við fórum með nemendur úr 7. til 10. bekk á mótið og voru krakkarnir okkar að venju til fyrirmyndar og sjálfum sér og skólanum til sóma. Það er ekki erfitt að ferðast með þessum krökkum og gaman þegar það gengur svona vel.
Á Þórshöfn var keppt í fótbolta og Singstar. Við fórum með tvö stelpnalið og eitt strákalið. Eldri stelpurnar stóðu sig vel og unnu flesta leiki og hlutu bikar að launum. Í sigurliðinu voru þær Perla, Silja, Gríma, Ke og Jóhanna. Við áttum líka sigurvegarann í Singstar, en það var Margrét Sylvía og fékk hún nýjasta Singstar diskinn í verðlaun.

Smellið hér til að skoða myndir

Brúðusýning á Kópaskeri

Bernd Ogrodnik brúðumeistari kom og sýndi brúðuleikrit sitt um Pétur og úlfinn í skólahúsinu á Kópaskeri í morgun. Áhorfendur voru nemendur og starfsfólk Öxarfjarðarskóla og Grunnskólans á Raufarhöfn. Það var þétt setið í gryfjunni og mikil og góð stemning meðal áhorfenda, enda gerði Bernd það listilega að virkja áhorfendur með. Frábær sýning í alla staði.

Hægt er að lesa um Bernd Ogrodnik með að smella hér (kynning Þjóðleikhússins) og hér (viðtal frá fræðsludeild Þjóðleikhússins)

Myndir frá brúðusýningunni

Myndir frá sundlotu

Í byrjun og lok skólaárs hefur það verið venja að báðar deildir skólans sameinast í Lundi og eru þá yngsta- og miðdeild í sundkennslu. Að þessu sinni stóð sundlota yfir frá annari kennsluviku og fram yfir miðja þá þriðju.

Á meðan sundlotan stendur yfir er reynt að brjóta upp skólastarfið og gera eitthvað annað en liggja í bókunum. Unglingar hafa hjálpað til við sundkennsluna og verið meistarar ofan í lauginni með yngri börnunum og hefur það fyrirkomulag tekist mkjög vel. Við höfum reynt að leggja áherslu á útiveru þegar til þess viðrar og m.a. reynt að fara a.m.k. einu sinni í þjóðgarðsferð með alla nemendur, til leiks og fræðslu í þjóðgarðinum. Síðustu árin höfum við verið með þróunarverkefni í gangi sem lið í því að fræða nemendur um sína heimabyggð.

Með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan má skoða myndir frá hluta af þeirri vinnu sem fór fram á meðan á sundlotu stóð.
Það má sjá myndir frá því þegar unglingadeildin fór í Ás og taldi og flokkaði einnota drykkjarumbúðir sem safnast höfðu í þjóðgarðinum í sumar. Afraksturinn var tæpar 10.000 dósir og flöskur og rennur ágóðinn af því í ferðasjóð nemenda. Ýmislegt annað en dósir voru í pokunum og margt af því miður geðslegt. Krakkarnir stóðu sig samt eins og hetjur og létu ekki á sig fá þótt ýmislegt væri illa lyktandi og ógeðslegt.
Það eru einnig myndir frá því þegar unglingadeildin gekk um Vesturdal og Svínadal í hávaðaroki, sand- og moldfoki.
Síðan er hægt að skoða myndir úr ferðum yngri- og miðdeildar í skógræktina í Akurgerði.
Eins eru myndir frá pappírsendurvinnslu yngri- og miðdeildar og frá útileikjum yngstu deildar.

Skoða myndir