í
morgun fengum við skemmtilega heimsókn. Það voru rapparinn Poetrix (Sævar Daniel Kolandavelu) og plötusnúðurinn og beat boxarinn Siggi Bahama (líka
þekktur undir nafninu DJ Nennisiggi). Þeir tóku nokkur lög og var mjög gaman að fá svona tónlistaratriði inn í skólastarfið.
Poetrix og Bubbi Morthens gerðu lag í sameiningu sem var töluvert vinsælt og mikið spilað í útvarpi í fyrra. Það lag heitir Vegurinn til
glötunar.
Eftir að þeir félagar höfðu spilað fyrir alla nemendur og starfsfólk nokkur lög fóru yngri bekkirnir aftur til sinna starfa en Sævar rabbaði
við nemendur úr unglingadeild. Hann ræddi meðal annars um ímyndir og fyrirmyndir og hvernig fjölmiðlaumræða gefur oft villandi mynd af þekktu
fólki. Hann talaði líka um vald krakkanna yfir sínu lífi og hvaða leiðir standa þeim opnar. Sævar og Siggi hafa verið á yfirreið og
heimsótt skóla landsins í haust.
Þetta er verkefni sem Sævar stendur sjálfur að og réðist hann í það því honum ofbauð sú neikvæða umræða
og þau misvísandi skilaboð sem fjölmiðlar og tónlistarheimurinn senda ungu fólki. Sævar vill reyna að koma fram sem jákvæð fyrirmynd
og vara krakkana við þeim þrýstingi sem þau verða fyrir frá umhverfinu. Hann hefur sjálfur reynt hvað það er að missa fótanna
en hefur risið upp og vill miðla af reynslu sinni.
Það var gaman að fá þá félaga í heimsókn og áhugavert hvernig Sævar nálgaðist krakkana á einlægan og
skemmtilegan hátt án þess að setja sig í predikunargír eða fylla þau af lífsreynslusögum.
Smellið hér til að sjá myndir.
My space síða Poetrix