Fréttir

Litlu jólin voru haldin hátíðleg í skólanum í dag.

Smellið á lesa meira til að lesa pistil Guðrúnar skólastjóra um litlu jólin

Kennsla fellur niður fyrir hádegi mánudaginn 15. des

Það vofir yfir skólanum að þurfa að skera talsvert niður í fjárhagsáætlun næsta árs. Af þeim sökum munu Bergur Elías sveitarstjóri og Guðbjartur fjármálastjóri mæta til fundar við starfsmenn skólans fyrir hádegi næstkomandi mánudag, 15. desember, og fara yfir stöðu mála.
Af þessum sökum sjáum við okkur ekki annað fært en að fella niður kennslu fyrir hádegi þennan dag. Kennt verður samkvæmt stundaskrá frá 12:30.
Skólabílar munu fara frá Kópaskeri og Fjöllum klukkan 12:00 og þurfa nemendur að vera búnir að borða heima áður.

Við biðjumst afsökunar á þessari röskun.
Starfsfólk Öxarfjarðarskóla

Föndurdagur og Lúsí­uhátí­ð

Í dag var hin árlega Lúsíuhátíð í skólanum undir stjórn Önnu Englund. Þar komu fram nemendur úr skólanum, sá yngsti úr 1. bekk og þau elstu úr 10. bekk og sungu Lúsílög. Þau fengu aðstoð frá tveimur fyrrverandi nemendum, þeim Lottu og Silju og Ann-Charlotte studdi þau líka í söngnum. Þetta er skemmtilegur siður sem Anna er búin að flytja til okkar frá Svíþjóð.

Myndir frá Lúsíudegi

Leikskólabörn föndruðu af mikilli einbeitniÍ gær var svo hinn árlegi föndurdagur í skólanum. Föndrið hófst eftir morgunmat og stóð fram til hádegis. Fjórar föndurstöðvar voru í boði. Á einni var kertagerð, þar sem gömul kerti og kertaafgangar voru endurunnin. Einnig var jólakortagerð þar sem m.a. gömul jólakort voru endurnýtt. Síðan voru Jóhanna og Bói með opnar handmennta- og smíðastofu þar sem mikil listaverk urðu til. Þó nokkrir foreldrar og afar og ömmur létu sjá sig og föndruðu með börnunum. Það var mjög gaman að fá þessa gesti inn í húsið.

Myndir frá föndurdegi

Skólaferðalag 1.-6. bekkjar

Vel heppnað skólaferðalag yngri nemenda var á sl. miðvikudag. Þá fóru nemendur 1.-6. bekkjar skólans ásamt jafnöldrum þeirra frá Kópaskersskóla m.a. upp í Mývatnssveit og hittu jólasveina.
Smellið á lesa meira til að lesa pistil Vigdísar um ferðina.

Á aðventunni

Senn líður að jólum og erum við þegar byrjuð að setja hefðbundinn jólasvip á skólann okkar með skreytingum og jólatréð er komið upp og setur hátíðlegan svip á umhverfið. Kveikt var á því 1. des við söng nemenda og starfsfólks. Ýmislegt verður og hefur verið á döfinni hjá okkur í desember. Smellið á lesa meira til að sjá nánar um það.

Kveikt á jólatrénu í­ Lundi

Í morgun fóru nemendur og starfsmenn skólans út og sungu nokkur jólalög um leið og tendrað var á jólatrénu.

Fréttakorn frá Öxarfjarðarskóla nr. 4

Þá er komið að því eina ferðina enn. Fréttakorn fjögur hefur fæðst, þó manni finnist það síðasta hafa farið út í gær. Smellið á lesa meira til að sjá pistilinn.

Björgunarsveitarval í­ unglingadeild

IMG_8734.JPGÞegar við hófum að bjóða upp á lengda viðveru í skólanum ákváðum við að bjóða nemendum unglingadeildar upp á björgunarsveitarval undir leiðsögn Kidda og Steina. Þátttakan kom á óvart, eða 17 af 21 nemanda völdu að taka þátt.

Markmið verkefnisins er að kynna fyrir unglingunum hversu fjölbreytta og skemmtilega möguleika íslensk náttúra hefur til ferðamennsku og útivistar, hvort heldur sem að sumri eða vetri. Þessum aldurshópi hættir til að festast í inniveru í tómstundum sínum frekar en að vera úti og njóta náttúrunnar. Hér í dreifbýlinu er aðgengi þessa aldurshóps að tómstundamöguleikum er takmarkað en við erum það heppin að á svæðinu er stórbrotin og mikilfengleg náttúra sem allir geta notið. Samhliða þessu munu þau kynnast starfsemi og tilgangi björgunarsveita og þeim hættum og skyldum sem ferðalögum í íslenskri nátturu fylgja.

IMG_8852.JPGVið hittumst vikulega á miðvikudögum þar sem til skiptis er innikennsla og æfingar inni, og hins vegar er farið út þar sem látið er reyna á það sem hefur verið kennt. Stefnt er á þrjár æfingaferðir (helgarferðir) á tímabilinu. Eina fyrir áramót og tvær eftir áramót. Einnig er stefnt á að fara í styttri ferðir til að æfa klifur í klifurveggjum og komast í báta. Svo verða einhverjar dagsferðir eftir veðri og aðstæðum.

Krakkarnir eru mjög áhugasamir og spenntir í starfinu og er vonandi að þau eigi eftir að nota og njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem þau fá í starfinu.

Myndir úr starfinu þar sem krakkarnir æfa m.a. hnúta, prófa sigtól í brattri brekku og loks síga fram af skólahúsinu er hægt að skoða hér.

Hip hop í­ Lundi

Siggi Bahama á græjunum og Poetrix rapparí morgun fengum við skemmtilega heimsókn. Það voru rapparinn Poetrix (Sævar Daniel Kolandavelu) og plötusnúðurinn og beat boxarinn Siggi Bahama (líka þekktur undir nafninu DJ Nennisiggi). Þeir tóku nokkur lög og var mjög gaman að fá svona tónlistaratriði inn í skólastarfið.

Poetrix og Bubbi Morthens gerðu lag í sameiningu sem var töluvert vinsælt og mikið spilað í útvarpi í fyrra. Það lag heitir Vegurinn til glötunar.

Eftir að þeir félagar höfðu spilað fyrir alla nemendur og starfsfólk nokkur lög fóru yngri bekkirnir aftur til sinna starfa en Sævar rabbaði við nemendur úr unglingadeild. Hann ræddi meðal annars um ímyndir og fyrirmyndir og hvernig fjölmiðlaumræða gefur oft villandi mynd af þekktu fólki. Hann talaði líka um vald krakkanna yfir sínu lífi og hvaða leiðir standa þeim opnar. Sævar og Siggi hafa verið á yfirreið og heimsótt skóla landsins í haust.

Þetta er verkefni sem Sævar stendur sjálfur að og réðist hann í það því honum ofbauð sú neikvæða umræða og þau misvísandi skilaboð sem fjölmiðlar og tónlistarheimurinn senda ungu fólki. Sævar vill reyna að koma fram sem jákvæð fyrirmynd og vara krakkana við þeim þrýstingi sem þau verða fyrir frá umhverfinu. Hann hefur sjálfur reynt hvað það er að missa fótanna en hefur risið upp og vill miðla af reynslu sinni.

Það var gaman að fá þá félaga í heimsókn og áhugavert hvernig Sævar nálgaðist krakkana á einlægan og skemmtilegan hátt án þess að setja sig í predikunargír eða fylla þau af lífsreynslusögum.
Smellið hér til að sjá myndir.

My space síða Poetrix

Fréttakorn frá Öxarfjarðarskóla nr. 3 Taka tvö

Fréttakorn Öxarfjarðarskóla

Tíminn líður eins og óð fluga og þrjár vikur liðnar frá síðasta fréttabréfi og ekki úr vegi að rifja upp það sem gerst hefur og um leið að segja frá því sem framundan er.
 
Heildstæður skóli

Nemendur eru jákvæðir í garð heildstæðs skóla og alla jafna ánægðir með það sem í boði er. Í þessari viku eiga nemendur að velja fyrir nóvembermánuð og bætast inn nýjar tómstundir og námskeið þó eitthvað haldi sér áfram, t.a.m björgunarsveitarnámskeið, fimleikar, fótbolti og opin handmenntastofa. Við komum til með að bjóða upp á námskeið í eldamennsku þar sem áherslan verður m.a. lögð á hvernig hægt sé að nýta afgangana úr ísskápnum – ekki sem verst að kunna að bjarga sér og nýta allan mat!

Okkur er sönn ánægja að segja frá því að Guðmundur Örn mun bjóða upp á smíðanámskeið nú nóvember.