Fréttir

Félagsmiðstöðin með kaffisölu

Krakkarnir í félagsmiðstöðinni voru með kaffihús í versluninni Bakka síðasta föstudag. Það lukkaðist mjög vel og voru viðtökur góðar. Þau hafa nú verið að hringja út og bjóða fyrirtækjum að kaupa af sér bakkelsi.

Á næst komandi föstudag á að reyna aftur með kaffihús í Bakka. Þar verða krakkarnir með kaffi eða kakó og heimabakað meðlæti á boðstólum.

Þetta er allt til að gera suðurferðina á söngkeppni Samfés ódýrari fyrir krakkana. Það lítur út fyrir að verðið náist niður í það að vera í mesta lagi 3.000 kr.

Kaffihús á Kópaskeri

Félagsmiðstöðin Beisið verður með kaffihús í versluninni Bakka á föstudaginn 22. febrúar. Beisið er félagsmiðstöð unglinga úr Öxarfjarðarskóla. Kaffisalan verður í fjáröflunarskini fyrir ferð félagsmiðstöðvarinnar til Reykjavíkur á Samféshátíð og söngkeppni Samfés en við unnum okkur þátttökurétt með glæsibrag í undankeppni á Húsavík.

Ferð sem þessi er dýr og er þess vegna hugmyndin að reyna að safna sem mestu til að öllum sem vilja fara suður verði það mögulegt.

Auk þess að selja kaffi og meðlæti verða til sölu blómvendir og geta eiginmenn og unnustar keypt blómí tilefni konudagsins sem er á sunnudaginn.

Skí­ðaferðalag

Í síðustu viku fóru nemendur 7.-10. bekkjar í skíðaferðalag til Akureyrar. Ferðinni hafði verið frestað vegna þessa mikla hvassviðris sem fór yfir landið vikuna áður.

Það var lagt af stað að morgni sunnudagsins 10. febrúar. Þegar við komum á Svalbarðsströndina fréttum við að lokað væri uppi í fjalli vegna hvassviðris. Við fórum því beint í íþróttahöllina þar sem við gistum og byrjuðum að koma okkur fyrir. Þegar ljóst var að fjallið yrði ekki opnað þann daginn var ákveðið að skella sér á skautasvellið í staðinn þar sem menn renndu sér fram eftir degi.

Á mánudagsmorgun fóru nemendur 9. og 10. bekkjar í skoðunar- og kynnisferð í VMA. Því næst var brunað upp í fjall þar sem mannskapurinn fékk skíði og bretti og fóru svo í brekkurnar. Hópurinn fékk kennslu, bæði á skíði og bretti, og tóku margir miklum framförum. Veðrið uppi í fjalli var þokkalegt framan af en það jók alltaf í vind og um kaffileytið var orðið mjög hvasst og lélegt skyggni. Þá var haldið niður í bæ þar sem tóku við sund og bíóferðir fram eftir kvöldi.

Á þriðjudagsmorgun var farið í kynnisferð í MA. Veðurútlit dagsins var ekki gott, hvasst uppi í fjalli og tvísýnt með opnun þann daginn. Við drifum því af að ganga frá og þrífa í íþróttahöllinni. Þá var enn búið að fresta opnun uppi í fjalli. Það var mikil óánægja í nemendahópnum með það, helst að heyra á sumum að samsæri kennara væri um að kenna því þeir nenntu ekki í fjallið og vildu fara að komast snemma heim. En þó máttugir séu hafa kennarar ekki enn náð valdi yfir náttúruöflunum. Það var því haldið á Glerártorg þar sem nemendum var sleppt í búðarráp meðan beðið væri og séð til með fjallið. Þegar búið var að athuga eina ferðina enn hvernig aðstæður væru uppfrá  og ljóst að mjög tvísýnt væri að opnað yrðið þann daginn var haldið aftur á skautasvellið þar sem margir fóru í íshokkí. Síðan  var haldið heim.

Það urðu einhverjir fyrir vonbrigðum með það að ekki skyldi vera tækifæri til að skíða meira. Sérstaklega þegar menn voru rétt að byrja að ná tækninni að fá þá ekki tækifæri til að æfa sig og láta reyna á hana. En þannig er þetta þegar við búum á Íslandi, veðrið getur verið ófyrirséð. Við hvetjum því foreldra og nemendur að taka sig saman og efna til dagsferðar á skíði einhvern daginn sem vel lítur út með veður.

Myndir frá ferðalaginu

Öskudagur

Í gær var öskudagur haldin hátíðlegur. Að þessu sinni var hann með öðru sniði en áður því ákveðið var að prófa að bjóða öllum nemendum skólans upp á dagskrá á Kópaskeri. Lundarnemendur fóru frá Lundi eftir hádegismat, komu við í Silfurstjörnunni og sungu þar og komu síðan á Kópasker. Þar hittu þau Kópaskersnemendur og gengu milli fyritækja í þremur hópum, skipt eftir aldursstigum. Að því loknu hittust allir hópar í Pakkhúsinu sem búið var að skreyta. Þar fengu þau gos og flögur, kötturinn var sleginn úr tunnunni og teknar myndir af öllum. Svo var dansinn stiginn, fyrst við popptónlist en síðan tók Jóhann við og stjórnaði gömlu dönsunum af myndarskap. Það var gaman að sjá hversu duglegir krakkarnir voru að dansa og greinilegt að þau hafa lært heilmikið í danskennslu í íþróttatímunum hjá Jóhanni.

Gunna Magga tók að sér að halda utan um og skipuleggja daginn og á hún skilið hrós fyrir hversu skemmtilega til tókst. Hún fékk marga í lið með sér til að gera daginn skemmtilegan og var ekki annað að sjá en krakkarnir hefði haft gaman af.

Myndir frá öskudegi
Myndir frá síðast degi danskennslu

Blásarakvintett á Kópaskeri

Í morgun voru tónleikar fyrir nemendur og starfsfólk Öxarfjarðarskóla. Málmblásarakvintett Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands komu og spiluðu í skólahúsinu á Kópaskeri. Hljóðfæraskipan var þannig að það voru tveir trompettleikarar, básunuleikari, túbuleikari og hornaleikari. Hljóðfæraleikararnir kynntu hljóðfæri sín á milli laga og léku lag á eftir þar sem viðkomandi hljóðfæri var áberandi. Það var mjög gaman að fá svona færa hljóðfæraleikara í heimsókn og voru áhorfendur hrifnir.

Hljóðfæraleikararnir þökkuðu fyrir sig og höfðu á orði hversu gaman væri að spila fyrir svona góða áhorfendur. Þeim þótti ástæða til að ítreka það áður en þeir yfirgáfu húsið að þeir fengju ekki alltaf svona góða áhorfendur á skólatónleikum. Þetta sýnir enn einu sinni hvað við eigum frábær börn hér á svæðinu.

Sjá myndir frá tónleikunum

Frægðarför til Húsaví­kur

Strákarnir flytja Ég elska mennÁ föstudaginn sl. var haldin undankeppni fyrir söngkeppni Samfés á Húsavík. Þarna mættu unglingar úr 18 félagsmiðstöðvum af Norðurlandi til að keppa um hvaða fimm atriði kæmust í aðalkeppnina sem haldin verður í Reykjavík þann 8. mars. Alls voru nálægt 600 manns í íþróttahúsinum á Húsavík þetta kvöld.

Krakkarnir frá félagsmiðstöðvunum voru að tínast smátt og smátt í bæinn fram eftir degi. Við úr Beisinu vorum ásamt Raufarhafnarkrökkunum þau fyrstu á staðinn. Eftir smá afslöppun á efri hæðinni í íþróttahöllinni röltum við á Sölku þar sem allir fengu að borða. Eftir það var frjáls tími fyrir alla nema keppendur en okkar strákar áttu æfingu kl. 15:10. Það dróst um hátt á klukkutíma að þeir gætu byrjað en á meðan voru krakkarnir ýmist í sundi, á búðarrápi, í höllinni eða í Keldunni. Eftir því sem leið á daginn og félagsmiðstöðvum á svæðinu fjölgaði fór að þrengjast um í Keldunni og fór þá fólk að tínast inn í höllina.

Strákarnir taka við verðlaunumEitthvað seinkaði byrjun keppninnar þar sem dagskrá dagsins hafði riðlast og að auki var ein rútan sem flutti Akureyringa í einhverju bileríi svo þeim seinkaði um rúman klukkutíma.

Keppnin hófst svo loks og það var greinilegt að krakkarnir voru komnir til að skemmta sér, því það var mikið líf og fjör í stúkunni og kepptust menn um að hrópa nafn sinnar félagsmiðstöðvar. Öll fengu lögin góðar viðtökur hjá áhorfendum og var gaman að sjá hversu margir voru duglegir að fagna keppendum hinna félagsmiðstöðvanna.

Brjálað stuð á dansgólfinu og uppi á sviðiStrákarnir okkar í Beisinu voru síðastir á svið. Þeir nutu góðs af því að salurinn var orðinn heitur og mikil stemmning í áhorfendum. Þeir náðu strax salnum með sér með miklu klappi og fagnaðalátum, enda var flutningurinn hjá þeim öruggur og líflegur. Þegar þeir svo rifu sig úr bolunum um mitt lagið ætlaði þakið að rifna af húsinu, svo mikil voru fagnaðarlætin.

Það fór svo að Beisið átti eitt af þeim fimm atriðum sem komast í aðalkeppnina í mars. Þrjú bestu atriðin fara áfram og þar að auki eru veittar viðurkenningar fyrir athyglisverðasta flutninginn, sem Beisið fékk, og bestu framkomuna. Hinar félagsmiðstöðvarnar sem fóru áfram voru Pleizið frá Dalvík, Gryfjan frá Grenivík, sem fékk verðlaun fyrir bestu framkomuna, Hyldýpið frá Eyjafjarðarsveit og Himnaríki frá Akureyri.

Að lokinni keppni sá Alan Haywood, sem jafnframt var einn dómara, um að plötusnúðast og var mikið stuð á dansgólfinu.

Myndir frá Húsavík eru hér

Tengill á frétt frá keppninni á mbl.is