15.11.2019
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í Öxarfjarðarskóla í dag föstudaginn 15. nóvember - Í kjölfar örlítillar umræðu um daginn og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson, kynnti Guðríður Baldvinsdóttir, Lóni, rithöfundur með meiru, fyrir okkur nýútkomna bók sína, Sólskin með vanillubragði. Guðríður las kafla úr bókinni. Sagan gerist í veit og margir skondnir karakterar koma fyrir í henni. Ég hvet fólk til að lesa þessa barnabók með börnum sínum. Það eru allt of fáar nútímasögur sem gerast í sveit. Við óskum Guðríði Baldvinsdóttur hjartanlega til hamingju með bókina og erum þakklát fyrir að hún skyldi gefa sér tíma til að koma til okkar. Miðdeild futti frumsamin ljóð um ísbjörninn sem á í vök að verjast vegna loftlagsbreytinga og börn sem eiga á brattan að sækja og búa við erfið kjör. Jónas Hallgrímsson var náttúrufræðingur, auk þess að vera skáld, og bjó til mörg orð sem okkur þykja sjálfsögð í dag, m.a. fluggáfaður, brandugla, hafflötur o.fl. Undirrituð hnaut um hugtakið, bringsmalarskotta, og fann ekki í fljótu bragði skýringu á hugtakinu en skýringin er komin 🙂 bringsmalarskotta er hugtak sem Jónas Hallgrímsson notaði yfir þunglyndi; Eitthvað sem lagðist þungt á brjóstið á manni, eins og draugur eða mara.
Að lokum sungum við saman. Á íslensku má alltaf finna svar.
13.11.2019
Árshátíð Öxarfjarðarskóla verður haldin í Skúlagarði föstudaginn 22. nóvember, kl 18:30.
06.11.2019
Dagur íslenskrar tungu verður haldinn hátíðlegur í Öxarfjarðarskóla föstudaginn 15. nóvember - Í kjölfar örlítillar umræðu (kl 11;00) um daginn og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson, ætlar Guðríður Baldvinsdóttir, Lóni, rithöfundur með meiru, að koma í heimsókn til okkar og kynna nýútkomna bók sína, Sólskin með vanillubragði. Ekki amalegt að vera búin að fá barnabókarithöfund á svæðið. Við óskum Guðríði Baldvinsdóttur hjartanlega til hamingju með bókina. Miðdeild flytur frumsamið ljóð um ísbjörninn sem á í vök að verjast vegna loftlagsbreytinga. Við syngjum að lokum. Á íslensku má alltaf finna svar.
06.11.2019
Endurnýtingadeginum í Pakkhúsinu á Kópaskeri, þann 26. október, mæltist vel fyrir og vakti mikla lukku hjá ungum sem öldnum og margir nýtilegir hlutir skiptu um hendur. Frábær hugmynd hjá þeim Erlu og Siddu og tókst í alla staði vel og fólk kom víða að. Kaffisala nemenda var vel sótt og drjúg upphæð safnaðist í ferðasjóð. Eldri borgarar voru svo örlátir að þeir borguðu umfram þátttöku og styrktu heldur betur ferðasjóð nemenda með því. Vonandi verður endurnýtingardagur árleg uppákoma hér eftir.
05.11.2019
Skákkennsla í Öxarfjarðarskóla
Stefán Bergsson frá Skáksambandi Íslands kom í heimsókn í Öxarfjarðarskóla. Hann kenndi börnum á öllum stigum. Hann sýndi þeim og Christoph, sem hélt utan um þetta verkefni, gagnlegar æfingar og veitti hópnum upplýsingar um fyrirhugað Norðurlandsskákmót. Hann hafði orð á því að nemendur skólans væru áhugasamir og prúðir enda tala myndirnar, sem Christoph tók, sínu máli. Þetta var mjög vel heppnuð heimsókn. Christoph fékk þann heiður að tefla við Stefán. Það mátti ekki á milli sjá en Christop hafði sigur í lokin.
04.11.2019
Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Haustið 2019 fóru sex skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta.
Það voru þau Eva Rún Þorgeirsdóttir og Sævar Helgi Bragason heimsóttu Öxarfjarðarskóla þann 30 október og fjölluðu á fjörugan hátt um töframátt bóka og hvernig þær geta breytt heimi okkar. Nemendur frá elstu börnum leikskólans og upp í 10. bekk, hlustuðu með andakt og spurðu þau Evu og Sævar ýmissa spurninga. Þau Eva og Sævar náðu vel til alls hópsins.
Eva Rún skrifar skáldsögur fyrir börn og hefur m.a. sent frá sér þríleikinn um Lukku og hugmyndavélina. Auk þess kennir hún ritlist og starfar við dagskrárgerð á RÚV og kemur að verkefnum eins og Stundinni okkar og Krakkafréttum.
Sævar Helgi Bragason er margverðlaunaður fræðimaður og skrifar bækur fyrir börn og fullorðna. Hann hefur m.a. sent frá sér bækurnar Svarthol og Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna. Hann starfar sömuleiðis á RÚV við dagskrárgerð. Sævar Helgi Bragason er einnig ritstjóri stjörnufræðivefsins er íslenskur alfræðivefur um allt sem viðkemur stjörnufræði. Honum er ætlað að efla áhuga almennings á stjörnufræði og auðvelda aðgengi að efni um stjörnufræði á íslensku.
Nemendur Öxarfjarðarskóla kunnu vel að meta þessa heimsókn.
31.10.2019
Unglingadeildin í Öxarfjarðarskóla heldur félagsvist í kvöld, fimmtudaginn 31. október.
Spilað verður í skólanum í Lundi og hefst spilamennskan kl 19:00.
Aðalvinningarnir eru gjafabréf frá Sölku á Húsavík.
Verð fyrir spjaldið er 1500 krónur og er innifalið í því kaffiveitingar og
allur ágóði rennur í ferðasjóð nemenda.
Athugið að við getum ekki tekið við kortum svo komið endilega með reiðufé.
Við hlökkum til að sjá sem flesta.
Endilega látið þetta berast til þeirra sem eru lítt virkir á samfélagsmiðlum.
Fyrir hönd Nemendafélagsins.
Guðrún S. K.
27.09.2019
-Evrópski tungumáladagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur þann 26. september ár hvert frá árinu 2001. Þann dag eru allir Evrópubúar hvattir til þess að uppgötva og kynna sér tungumál, enda er fjölbreytni tungumála verkfæri sem hægt er að nota til þess að öðlast betri skilning á menningu annarra.
-Evrópski tungumáladagurinn var hafður í heiðri og gerð skil í Öxarfjarðarskóla. Christoph var búinn að undirbúa verkefni taka saman fjölda evrópska tungumála sem tengjast Öxarfjarðarskóla og það voru hvorki meira né minna né ellefu tungumál sem tengdust Öxarfjarðarskóla. Tælenskan fékk að sjálfsögðu að fylgja með á tungumáladegi. Nemendur og starfsfólk kom saman í gryfju, skiptu sér í hópa og fundu orð, á öllum tungumálunum, sem voru svo sett undir fána hvers lands.
-Í tilefni Evrópska tungumáladagsins tók Christoph saman öll tungumál sem snerta skólann á einhvern hátt: íslensku, dönsku, norsku, sænsku, ensku, þýsku, spænsku, pólsku, slóvakísku, eystnesku og tælensku = 11 tungumál.
-Hann fræddi börnin örstutt um tungumálin með því að sýna hvernig orðið vinur er mismunandi á þessum tungumálum. Christoph vildi fræða börnin um þessi 11 tungumál sem tengjast Öxarfjarðarskóla og láta nemendur komast í snertingu við þau. Hann lét nemendur þýða orð, sem þau völdu sjálf, á öll tungumál. Orðin sem nemendur völdu skipta öll mjög miklu máli: klósett, hamingja, dýr, matur og skóli. Nemendur skiptu sér í hópa og notuðu annað hvort Ipad eða eigin þekkingu til að þýða orðin. Vinnan gekk mjög vel og var einstaklega gaman að sjá tælenska nemendur aðstoða íslenska nemendur við að skrifa á tælensku. Afrekstur verkefnisins er núna á veggnum í gryfjunni og hefur nú þegar leitt til umræðna (allavega milli starfsmanna) um skyldleika orða. Hugmyndin er að halda verkefninu lifandi með að bæta við fleiri orðum seinna.
-Aukatilgangur verkefnisins er að nemendur frá öðrum löndum sjái að tungumál þeirra er sýnilegt í skólanum og virðing borin fyrir því.
19.08.2019
Starfsfólk skólans er núna á fullu að undirbúa skólabyrjun og komandi skólaár.
Skólasetning verður þann 26. ágúst kl 17:30. Hún verður með hefðbundnu sniði, nemendur munu hitta umsjónarkennara og fá afhentar stundaskrár.
Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 27. ágúst.
17.05.2019
Skólaslit Öxarfjarðarskóla, föstudaginn 17.maí, kl 17:30.
17th of May - End of term 17:30 o´clock
Skólaslit og afhending námsmats - Þær Hulda og Guðný verða með góðgerðir, kaffi og með því, að vanda.
End of term, students will get their grades. Koffee og cakes afterwards.