Fréttir

Fréttakorn í­ janúar

Kæru foreldrar/forráðamenn
Gleðilegt nýtt ár.
Lengd viðvera er kominn í gang í Öxarfjarðarskóla og hlutirnir eru að færast í fastar skorður eftir jólafrí. Að vísu setur handboltinn sitt mark þessa dagana og mikill áhugi á að fá að fylgjast með honum og bara jákvætt að rætt sé um eitthvað annað en kreppu í þjóðfélaginu.  Í lengdu viðverunni á þriðjudag og fimmtudag stóð nemendum til boða að fylgjast með landsliðinu og var stór hluti nemenda sem nýtti sér það.
 
Í lengdri viðveru er auk vinnustofu boðið upp á:
Þrekæfingar, hreyfingu og leiki, fótbolta, heimilisfræði, leiklistarnámskeið, opna handavinnustofu, smíðastofu og myndmenntastofu. Úr grenndarsamfélaginu okkar koma Stefánar tveir með námskeið inn í lengda viðveru. Stefán Sigtryggsson, Garði, með fótbolta og Stefán Rögnvaldsson, Leifsstöðum, með heimilisfræði.
 
Signe Ann-Charlotte Fernholm, hún Anka okkar, er komin til starfa aftur eftir fæðingarorlof. Anka hefur umsjón með 4.-5. bekk.
 
Mikill áhugi er á fótboltaspilum og í ákveðnum árgöngum kom upp órói og árekstar, í tengslum við spilin. Ákveðið var á fundi með viðkomandi nemendum að koma ekki með spilin eða möppurnar í skólann fyrr en í , febrúar og þá eingöngu á miðvikudögum.
 
Olga Gísladóttir hafði samband og færði okkur þær ánægjulegu fréttir að endurskinsvesti fyrir nemendur í Öxarfjarðarskóla væru í höfn. Silfurstjarnan ætlar að gefa skólanum endurskinsvesti fyrir grunnskólabörnin og VÍS endurskinsvesti fyrir leikskólabörnin. Það tekur einhvern tíma að útvega vestin og munuð þið frétta af því þegar þau koma í hús.
 
Undankeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi fyrir söngkeppni Samfés er í dag, föstudaginn 29. janúar, á Akureyri. Nánanst allir nemendur úr unglingadeildinni okkar fara og þar af verða sex stúlkur sem munu flytja gamla Trúbrotslagið Án þín.
 
Bestu kveðjur,
Guðrún og Hrund