31.01.2019
Um leið og við óskum öllum Kvenfélagskonum til hamingju með afmælið á morgun viljum við nota tækifærið og þakka fyrir þann hlýhug og stuðning sem Kvenfélögin þrjú hér á svæðinu, Kvenfélagið Stjarnan, Kvenfélag Öxarfjarðar og Kvenfélag Kelduhverfnis, hafa sýnt Öxarfjarðarskóla í gegnum árin. Sá stuðningur hefur gert okkur ýmislegt kleyft sem annars hefði erfit verið að koma á. Kærar þakkir.
30.01.2019
Silja Jóhannesdóttir hefur tekið við sem verkefnastjóri hjá GERT. GERT er verkefni á landsvísu sem Samtök iðnaðarins stýra. Í upphafi tóku höndum saman hér á svæðinu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar til að vinna verkefninu veg. Einnig hefur Þekkingarnet Þingeyinga ákveðið að vera með.
Föstudaginn 1. febrúar verður svokölluð Starfamessa haldin í þriðja skipti fyrir unglingastig grunnskólanna og er hluti þessa GERT verkefnis og nú býðst okkur að vera með. Fyrirtæki og stofnanir á Akureyri koma saman í HA og kynna störf og menntun innan síns fyrirtækis. Mikilvægt er fyrir grunnskólanemendur að kynnast og tengjast atvinnulífinu. Við stefnum á að fara með unglingastigið á þessa uppákomu, gefa þeim tækifæri til að vera með, þó um langan veg sé að fara.
Verkefnið snýr að því að efla grunnmenntun í raunvísindum og tækni. Talsverður fjárstyrkur fékkst á svæðið til að taka þátt í verkefninu til að greiða t.d. ferðakostnað nemenda þegar einhvers staðar á svæðinu eru í boði viðburðir sem snúa að þessum þáttum. Verkefnin eru fleiri og margvísleg, t.d. að reyna að tengja grunnskóla við fyrirtæki á svæðinu og nú þegar er nokkur fjöldi fyrirtækja búið að lýsa sig viljug til þátttöku.
Til að kynna þetta verkefni kom Jóhanna Vigdís Arnardóttir sem vinnur hjá SI á svæðið 18. janúar ásamt Silju og kynntu þær stöllur verkefnið fyrir okkur.
30.01.2019
Í morgun, miðvikudaginn 30. janúar, komu þau listafólkið Kolbeinn Hugi og Nika Dubrovsky, sem er frá Rússlandi, til okkar með listasmiðju fyrir mið- og unglingastig. Því miður hafði Grunnskóli Raufarhafnar ekki tök á að vera með okkur í þessu verkefni sem listafólkið kallar: Mannfræði fyrir krakka.
Listafólkið var ánægt með andrúmsloftið sem mætti þeim í skólanum og töluðu um frjálslega nemendur sem voru tilbúnir til þess að nota ímyndunaraflið. Nemendur sköpuðu eigin ímynduð samfélög og þjóðir með hjálp þeirra Niku og Kolbeins. Nemendur glímdu þannig á skapandi hátt við spurningar eins og hvað er samfélag? Hvað þarf til að samfélag virki? Hvernig geta samfélög verið? Það var gaman að koma niður og heyra og sjá hvað nemendur voru að gera.
29.01.2019
Á morgun, miðvikudaginn 30. janúar, mun listafólkið Kolbeinn Hugi og Nika Dubrovsky, sem er frá Rússlandi, koma til okkar með listasmiðju fyrir mið- og unglingastig. Nemendur mið- og unglingastigs á Raufarhöfn munu koma til okkar og taka þátt í þessu verkefni sem listafólkið kallar: Mannfræði fyrir krakka.
Þetta verður spennandi verkefni. Nemendur munu skapa eigin ímynduð samfélög og þjóðir með hjálp leiðbeinenda. Nemendur glíma þannig á skapandi hátt við spurningar eins og hvað er samfélag? Hvað þarf til að samfélag virki? Hvernig geta samfélög verið Við sköffum bækur og efni til þess að hjálpa til við ferlið og í bókunum eru ýmis verkefni/viðfangsefni sem nemendurnir geta valið úr sem snertir áhugasvið þeirra í samfélagsfantasíum þeirra.
Hlökkum til 😊
27.12.2018
Litlu jólin, hátíðarmatur, jólasögur og pakkapúkk: Hátíðin hófst með því að allir komu saman í gryfju kl. 22:45 og það voru hátíðlegir og fallegir nemendur sem voru þar saman komnir. Kl 12:00 var hátíðarmatur til reiðu hjá Huldu og Guðnýju. Létt reykt lambakjöt ásamt meðlæti og ís í eftirrétt. Skólastjóri las nemendur saman til borðs og tóku eldri nemendur að sér yngri nemanda til borðs og studdu að sjálfsögðu við þá yngri og gerðu það af mikilli ábyrgð. Að hádegisverði loknum fóru nemendur í kennslustofur með kennurum þar sem lesnar voru jólasögur og farið í pakkapúkk.
Dansað var í kringum jólatré með rammíslenskum jólasveinum
Boðið var upp á mjólk, kaffi og smákökur áður en dansinn fór í gang. Jónas Þór Viðarsson sá um undirspil og stjórnaði söng af mikilli list. Rammíslenskir jólasveinar komu og dönsuðu og sungu með börnunum. Ég held það hafi verið Skyrgámur og Gluggagægir. Þegar sveinarnir höfðu kvatt með pomp og prakt tók marsinn við og nemendur ásamt foreldrum marseruðu og léku listir um leið.
Jólafrí og skólabyrjun á nýju ári
Jólafrí hófst frá og með 21. desember hjá grunnskólanemendum. Nemendur mæta svo á aftur í skólann, á nýju ári, á hefðbundnum skólatíma, þann 3. janúar. Leikskólinn hefst 2. janúar en skólaakstur hefst ekki fyrr en 3. janúar á hefðbundnum tíma..
Hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári.
20.12.2018
Það er gaman að segja frá því að sú þjóðlega íþrótt, skák, hefur aldeilis vaknað til lífsins á haustönn. Christoph, kennari við skólann, hratt af stað skákmóti sem nemendur og starfsfólk tók þátt í og hefur Guðrún Lilja Dam, skólaliði, stutt við framtakið. Nú kunna orðið allir grunnskólanemendurnir mannganginn og margir þeirra orðnir mjög seigir í íþróttinni og leggja að velli sér mun eldri nemendur og starfsfólkið líka. Nemanda í 4. bekk þótti ekki leiðinlegt að sigra einn af þeim fremstu meðal fullorðna fólksins. Það heldur nú heldur betur við áhuganum og það er mikilvægt að börn og fullorðnir tefli, leiki og spili saman. Að telfla skák eflir rök- og stærðfræðihugsun, einnig það að hugsa fram í tímann og hefur uppeldislegt gildi. Meira að segja elstu börn leikskólans eru með.
Kúltúr frímínútna breyttist. Nú má sjá börn eða fullorðna tefla í nánast hverjum frímínútum.
Þorsteinn Gísli, 9. bekk vann nemendakeppnina þar sem 16 tóku þátt. Guðrún Lilja Dam vann starfsmannakeppni þar sem 6 tóku þátt. Svo kepptu sigurvegari nemenda og sigurvegari starfsmanna um skólameistaratitilinn. Bæði voru mjög spennt og léku hratt. Taflið tók ekki langan tíma og lauk með sigri Guðrúnar Lilju Dam. Það voru sannir íþróttamenn sem tókust í hendur að tafli loknu enda máttu báðir una vel við sitt. Til hamingju bæði tvö, með ykkar árangur.
Frábært framtak hjá Christoph að hrynda þessu verkefni í framkvæmd og halda því við.
19.12.2018
Ég minni á Litlu jólin á morgun í Lundi, miðvikudaginn 20. desember
Little Christmas will be tomorrow in Lundur, the 20th of Desember
We will dance around the Christmas tree from 15:20 and have a good time to 16:30. Everyone, parents and grandparents, are welcome to join us from 15:00 a.m.
Foreldrar og aðstandendur eru velkomin á jólaballið og í kaffi. Boðið verður upp á hressingu, kaffi og með því kl 15:00. Jólaball hefst kl 15:20 og kannske koma einhverjir skrítnir karlar í heimsókn um 15:30
Litlu jólin verða miðvikudaginn 20. desember og lýkur skóla þann daginn kl. 16:30. Þann dag verður pakkapúkk, lesin sundur jólakort, borðaður hátíðamatur og dansað kringum jólatré. Leik- og grunnskóli sameinast við borðhald og dans kringum jólatré. Foreldrar og aðstandendur eru velkomin á jólaballið og í kaffi. Boðið verður upp á hressingu, kaffi og með því kl 15:00. Jólaball hefst kl 15:20 og kannske koma einhverjir skrítnir karlar í heimsókn um 15:30. Heimferð kl 16:30.
17.12.2018
Jólatónleikar Tónlistarskólans verða, á morgun, 18. desember kl 17:00 í Lundi.
The musik school will have their Christmas consert on the 18th of Desember 17:00 o´clock in Lundur.
Ég minni á jólatónleika Tónlistarskólans þann 18. desember kl 17:00.
12.12.2018
Á morgun, 13. desember kl 8:20, verður Lúsíuhátíð í Öxarfjarðarskóla. Ykkur er velkomið að koma og njóta þessarar stundar með okkur. Það er mikill margbreytileiki í Öxarfjarðarskóla og nemendur og starfsfólk af mörgum þjóðernum og gaman að kynnast hefðum frá hinum ýmsu löndum.
12.12.2018
Engin hitaveita verður á morgun, þann 13. desember, vegna viðgerðar.
Engin hitsveita verður á morgun en við höldum okkar striki og höfum skóla og leikskóla. Ég óska eftir því að börnin komi hlýlega klædd í skólann (ullin stendur alltaf fyrir sínu). Friðgeir ætlar að færa okkur nokkra hitablásara og ef starfsfólk getur séð af einhverjum slíkum, er það vel þegið. Við fáum heitan mat í hádeginu og reynum að hafa hlýlegt í matsal.