11.02.2019
Í dag 11. febrúar er árlegur dagur íslenska táknmálsins. Mennta- og menningarrnálaráðuneytið hvetur skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til að huga að því að nota 11. febrúar, eða dagana þar í kring, til að kynna íslenskt táknmál sérstaklega. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið hér á landi og er fyrsta mál um 200 slendinga. Enn fleiri nýta sér íslenskt táknmál í daglegu lífi og starfi.
Öxarfjarðarskóli hafði daginn í heiðri og minnti nemendur á þetta mikilvæga mál. Á myndinni sjást nemendur og starfsfólk klappa fyrir nemendum, á táknmáli, eftir að þeir höfðu kynnt nokkur hugtök á táknmáli.
08.02.2019
Það hefur verið kínverskur blær á heimastofu yngsta stigs og miðrými í Öxarfjarðarskóla í tilefni kínverskra áramóta 5. febrúar. Í heimastofu og miðrými hanga uppi kínversk listaverk og kínverskar skreytingar. Yngsta stigið hefur, á undanförnum dögum, verið að kynna sér Kína og kínverska menningu undir handleiðslu Jennyar og Vigdísar.
Nemendur bjuggu til listaverk og skreytingar, spiluðu kínversk spil, dönsuðu kínverskan dans með tilheyrandi borðum, sem þeir sýndu okkur hinum. Einnig fengu nemendur að spreyta sig á því að borða með prjónum. Stórskemmtilegt að fá að fylgjast með þessu verkefni.
07.02.2019
Kæru foreldrar, forráðamenn og starfsfólk.
Um leið og Menntamálstofnun óskar okkur öllum til hamingju með dag leikskólans, sem var í gær miðvikudaginn 6. febrúar. Sendir hún frá sér eftirfarandi upplýsingar:
Menntamálastofnun vinnur að eflingu læsis í landinu í tengslum við þjóðarsáttmála um læsi. Þar spila leikskólar stórt hlutverk því þar er lagður mikilvægur grunnur að læsi. Málþroskinn vegur þar þyngst og er eitt mikilvægasta verkfærið.
Í tilefni af degi leikskólans gefur Menntamálastofnun út tvö myndbönd,Orðaforði og Læsisráð https://mms.is/myndbond , sem innihalda viðtöl við fagfólk og foreldra um mikilvægi þess að efla orðaforða og málþroska barna. Myndböndin nýtast bæði starfsfólki leikskóla svo og foreldrum og öðrum sem eiga í samvistum við börn. Þá gefur Menntamálastofnun út í formi talglæra, góð ráð um hvernig hægt er að nýta lestur á árangursríkan hátt.
Menntamálastofnun bindur vonir við að bæði myndböndin og talglærurnar nýtist starfsfólki leikskóla og þeir deili þeim áfram til foreldra svo allir geti lagt sitt af mörkum til að efla málþroska og grunnþætti læsis hjá sínum börnum.
01.02.2019
Það er erilsamt hjá unglingastiginu okkar þessa dagana.
Í dag er unglingastigið okkar á ferðinni og kynnir sér atvinnulíf og skóla á Akureyri.
Hér eru áætlaðar tímasetningar, sem mögulega eitthvað riðlast en undirrituð heyrði frá þeim kl 16:00 og þau voru að leggja af stað frá Akureyri og hafði gengið vel hjá þeim.
8:20 Morgunmatur í Lundi
8:40 Brottför úr Lundi
11:00 Starfamessa í HA
11:50 Kynningarferð í MA
13:00 Kynningarferð í VMA
14:00 Kynning á heimavistinni (óljós tímasetning, förum beint á vistina eftir VMA)
14:30 Matur, pítsa á Sprettinum (gæti riðlast eitthvað, fer eftir hvenær heimsóknin á vistina er búin.)
Heimferð yrði svo strax að loknum matnum.
Hópurinn gæti verið kominn í Lund upp úr 18:00. Nemendum er skilað við á afleggjara á leiðinni og á Kópasker.
Rúnar á Hóli keyrir Lundur-Akureyri-Lundur.
31.01.2019
Um leið og við óskum öllum Kvenfélagskonum til hamingju með afmælið á morgun viljum við nota tækifærið og þakka fyrir þann hlýhug og stuðning sem Kvenfélögin þrjú hér á svæðinu, Kvenfélagið Stjarnan, Kvenfélag Öxarfjarðar og Kvenfélag Kelduhverfnis, hafa sýnt Öxarfjarðarskóla í gegnum árin. Sá stuðningur hefur gert okkur ýmislegt kleyft sem annars hefði erfit verið að koma á. Kærar þakkir.
30.01.2019
Silja Jóhannesdóttir hefur tekið við sem verkefnastjóri hjá GERT. GERT er verkefni á landsvísu sem Samtök iðnaðarins stýra. Í upphafi tóku höndum saman hér á svæðinu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar til að vinna verkefninu veg. Einnig hefur Þekkingarnet Þingeyinga ákveðið að vera með.
Föstudaginn 1. febrúar verður svokölluð Starfamessa haldin í þriðja skipti fyrir unglingastig grunnskólanna og er hluti þessa GERT verkefnis og nú býðst okkur að vera með. Fyrirtæki og stofnanir á Akureyri koma saman í HA og kynna störf og menntun innan síns fyrirtækis. Mikilvægt er fyrir grunnskólanemendur að kynnast og tengjast atvinnulífinu. Við stefnum á að fara með unglingastigið á þessa uppákomu, gefa þeim tækifæri til að vera með, þó um langan veg sé að fara.
Verkefnið snýr að því að efla grunnmenntun í raunvísindum og tækni. Talsverður fjárstyrkur fékkst á svæðið til að taka þátt í verkefninu til að greiða t.d. ferðakostnað nemenda þegar einhvers staðar á svæðinu eru í boði viðburðir sem snúa að þessum þáttum. Verkefnin eru fleiri og margvísleg, t.d. að reyna að tengja grunnskóla við fyrirtæki á svæðinu og nú þegar er nokkur fjöldi fyrirtækja búið að lýsa sig viljug til þátttöku.
Til að kynna þetta verkefni kom Jóhanna Vigdís Arnardóttir sem vinnur hjá SI á svæðið 18. janúar ásamt Silju og kynntu þær stöllur verkefnið fyrir okkur.
30.01.2019
Í morgun, miðvikudaginn 30. janúar, komu þau listafólkið Kolbeinn Hugi og Nika Dubrovsky, sem er frá Rússlandi, til okkar með listasmiðju fyrir mið- og unglingastig. Því miður hafði Grunnskóli Raufarhafnar ekki tök á að vera með okkur í þessu verkefni sem listafólkið kallar: Mannfræði fyrir krakka.
Listafólkið var ánægt með andrúmsloftið sem mætti þeim í skólanum og töluðu um frjálslega nemendur sem voru tilbúnir til þess að nota ímyndunaraflið. Nemendur sköpuðu eigin ímynduð samfélög og þjóðir með hjálp þeirra Niku og Kolbeins. Nemendur glímdu þannig á skapandi hátt við spurningar eins og hvað er samfélag? Hvað þarf til að samfélag virki? Hvernig geta samfélög verið? Það var gaman að koma niður og heyra og sjá hvað nemendur voru að gera.
29.01.2019
Á morgun, miðvikudaginn 30. janúar, mun listafólkið Kolbeinn Hugi og Nika Dubrovsky, sem er frá Rússlandi, koma til okkar með listasmiðju fyrir mið- og unglingastig. Nemendur mið- og unglingastigs á Raufarhöfn munu koma til okkar og taka þátt í þessu verkefni sem listafólkið kallar: Mannfræði fyrir krakka.
Þetta verður spennandi verkefni. Nemendur munu skapa eigin ímynduð samfélög og þjóðir með hjálp leiðbeinenda. Nemendur glíma þannig á skapandi hátt við spurningar eins og hvað er samfélag? Hvað þarf til að samfélag virki? Hvernig geta samfélög verið Við sköffum bækur og efni til þess að hjálpa til við ferlið og í bókunum eru ýmis verkefni/viðfangsefni sem nemendurnir geta valið úr sem snertir áhugasvið þeirra í samfélagsfantasíum þeirra.
Hlökkum til 😊
27.12.2018
Litlu jólin, hátíðarmatur, jólasögur og pakkapúkk: Hátíðin hófst með því að allir komu saman í gryfju kl. 22:45 og það voru hátíðlegir og fallegir nemendur sem voru þar saman komnir. Kl 12:00 var hátíðarmatur til reiðu hjá Huldu og Guðnýju. Létt reykt lambakjöt ásamt meðlæti og ís í eftirrétt. Skólastjóri las nemendur saman til borðs og tóku eldri nemendur að sér yngri nemanda til borðs og studdu að sjálfsögðu við þá yngri og gerðu það af mikilli ábyrgð. Að hádegisverði loknum fóru nemendur í kennslustofur með kennurum þar sem lesnar voru jólasögur og farið í pakkapúkk.
Dansað var í kringum jólatré með rammíslenskum jólasveinum
Boðið var upp á mjólk, kaffi og smákökur áður en dansinn fór í gang. Jónas Þór Viðarsson sá um undirspil og stjórnaði söng af mikilli list. Rammíslenskir jólasveinar komu og dönsuðu og sungu með börnunum. Ég held það hafi verið Skyrgámur og Gluggagægir. Þegar sveinarnir höfðu kvatt með pomp og prakt tók marsinn við og nemendur ásamt foreldrum marseruðu og léku listir um leið.
Jólafrí og skólabyrjun á nýju ári
Jólafrí hófst frá og með 21. desember hjá grunnskólanemendum. Nemendur mæta svo á aftur í skólann, á nýju ári, á hefðbundnum skólatíma, þann 3. janúar. Leikskólinn hefst 2. janúar en skólaakstur hefst ekki fyrr en 3. janúar á hefðbundnum tíma..
Hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári.
20.12.2018
Það er gaman að segja frá því að sú þjóðlega íþrótt, skák, hefur aldeilis vaknað til lífsins á haustönn. Christoph, kennari við skólann, hratt af stað skákmóti sem nemendur og starfsfólk tók þátt í og hefur Guðrún Lilja Dam, skólaliði, stutt við framtakið. Nú kunna orðið allir grunnskólanemendurnir mannganginn og margir þeirra orðnir mjög seigir í íþróttinni og leggja að velli sér mun eldri nemendur og starfsfólkið líka. Nemanda í 4. bekk þótti ekki leiðinlegt að sigra einn af þeim fremstu meðal fullorðna fólksins. Það heldur nú heldur betur við áhuganum og það er mikilvægt að börn og fullorðnir tefli, leiki og spili saman. Að telfla skák eflir rök- og stærðfræðihugsun, einnig það að hugsa fram í tímann og hefur uppeldislegt gildi. Meira að segja elstu börn leikskólans eru með.
Kúltúr frímínútna breyttist. Nú má sjá börn eða fullorðna tefla í nánast hverjum frímínútum.
Þorsteinn Gísli, 9. bekk vann nemendakeppnina þar sem 16 tóku þátt. Guðrún Lilja Dam vann starfsmannakeppni þar sem 6 tóku þátt. Svo kepptu sigurvegari nemenda og sigurvegari starfsmanna um skólameistaratitilinn. Bæði voru mjög spennt og léku hratt. Taflið tók ekki langan tíma og lauk með sigri Guðrúnar Lilju Dam. Það voru sannir íþróttamenn sem tókust í hendur að tafli loknu enda máttu báðir una vel við sitt. Til hamingju bæði tvö, með ykkar árangur.
Frábært framtak hjá Christoph að hrynda þessu verkefni í framkvæmd og halda því við.