25.11.2016
Okkar árlega haustgleði var haldin í gær. Við vorum áfram á þjóðlegum nótum en að þessu sinni var þemað þjóðsögur og munnmælasögur við Öxarfjörð.
23.11.2016
Haustgleðin okkar, á morgun þann 24. nóvember kl 19:00.
Ég minni á okkar árlegu Haustgleði sem verður á morgun, fimmtudaginn 24. nóvember kl 19:00. Að þessu sinni verða sögur, munnmæli og örnefni í heimabyggð í aðalhlutverki og munu nemendur unglingadeildar sjá um dagskrá undir handleiðslu Hrundar. Afrakstur hagyrðingakvöldsins í fyrra, lítil en stórskemmtileg kvæðabók, verður til sölu á morgun, unnin af nemendum undir handleiðslu Kidda og Hrundar. Tónlistarskólinn kemur einnig að þessu með okkur og munu nemendur flytja tónlistaratriði sem þeir hafa æft með Adrian og Reyni. Skemmtileg myndverk verða á veggjum af stórbrotinni náttúru í kring og stuttmynd miðdeildar, unnið í samvinnu við Jenný og Lottu. Yfirkokkur að þessu sinni er Gulla í Klifshaga. Henni til aðstoðar ásamt unglingadeildinni verða þau Tryggvi og Lotta. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest
16.11.2016
Í október og nóvember voru lagðar fyrir kannanir til að meta líðan og samskipti í skólanum. Kannanirnar voru þríþættar, foreldrakönnun var lögð fyrir foreldra sem komu í foreldrasamtöl, nemendakönnun var lögð fyrir nemendur á skólatíma og var ákveðið að fara ekki neðar en í þriðja bekk þar sem spurningarnar eru oft ekki auðskiljanlegar yngri nemendum. Starfsmannakönnun svöruðu starfsmenn í skólanum á vinnutíma.
16.11.2016
Vegna slæmrar veðurspár hefur verið ákveðið að fresta okkar árlegu haustgleði um viku. Við stefnum á að haustgleðin verði fimmtudaginn 24. nóvember.
10.11.2016
Í dag, fimmtudaginn 10. október, var bleikja í boði Silfurstjörnunnar í matinn. Olga Gísladóttir, fyrir hönd Silfurstjörnunnar, færði okkur bleikjuna og var hún þegin með þökkum. Bleikjan rann ljúflega niður í hádeginu og við kunnum Silfurstjörnunni bestu þakkir fyrir.
24.10.2016
Sveitarfélög voru hvött til, af KÍ o.fl., að sýna konum stuðning í baráttunni fyrir jöfnum kjörum
og gera starfskonum sveitarfélaganna kleift að taka þátt í viðburðum dagsins og kom bréf þess efnis frá Norðurþingi í morgun.
Í Öxarfjarðarskóla tóku skólastjóri, ásamt Christoph og Kidda og unglingadeild upp kindilinn og gáfu
starfskonum tækifæri á að taka sér frí 14:38 eða fyrr.
Leikskóladeildir ákváðu að halda sínu striki enda fyrirvarinn stuttur.
Unglingarnir sáu um kaffið og voru búnir að baka fyrir það hjá Jenný í heimilisfræði.
Þeir sáu einnig um framreiðslu í kaffinu og frágang þar á eftir.
Myndarlegur hópur hér á ferð
24.10.2016
Í dag mánudaginn 24.október hófst hraðlestrarátak í Öxarfjarðarskóla. Við ætlum að nota næstu þrjár vikur í að efla hraðann sérstaklega og notum til þess margvíslegar aðferðir.
Unglingadeildin
Unglingadeildin verður með sérstakt námsefni í því skyni sem heitir Lestu nú og miðar að því sérstaklega að auka lestrarfærni nemenda og auka leshraða jafnt og þétt. Á meðan þessu stendur eiga nemendur stöðugt að skrá hjá sér niðurstöður úr könnunum á leshraða og skilningi. Í hverri kennslustund er leshraði nemenda mældur að minnsta kosti einu sinni og auk þess eiga þeir að svara spurningum úr textanum.
Yngri deild og miðdeild verða í margskonar lesverkefnum sem miða að meiri hraða og tímataka verður einnig notuð.
Af þessu tilefni langar okkur að hnykkja enn frekar á heimalestri sem er gríðarlega mikilvægur liður í eflingu lesturs. Allir nemendur eiga að lesa heima á hverjum degi og munið að hrós og hvatning skipta miklu máli í þessu sambandi.
Við mælum lesinn orðafjölda á mínútu (eða atkvæði á mínútu) í upphafi átaksins hjá öllum nemendum og svo aftur í lokin þann 11. nóvember.
Með von um gott samstarf og góða skemmtun!
Hrund og Guðrún
21.10.2016
Í dag fengum við skemmtilega heimsókn í skólann.
07.10.2016
Leikritið Eldbarnið, frá Möguleikhúsinu, var sýnt í Öxarfjarðarskóla á þriðjudaginn var, þann 3. október. Eldbarnið er hamfaraleikrit fyrir börn. Leikararnir Andrea Ösp Karlsdóttir, Alda Arnarsdóttir og Pétur Eggerz, sem einnig er höfundur leikritsins, fluttu þetta áhrifamikla verk. Leikritið fjallaði um eldgosið í Lakagígum, einhverjar mestu náttúruhamfarir Íslandssögunnar og þá miklu erfiðleika sem fylgdu. Allir nemendur grunnskóladeildar, ásamt kennurum, horfðu á verkið. Það er óhætt að segja að leikritið hélt athygli allra.
14.09.2016
Var beðin um að koma þessum upplýsingum á framfæri. Kv, GSK.
Spennandi fundur fyrir foreldra barna í leikskóla og 1- 4. bekk grunnskóla
Fundurinn verður haldinn í Samkomusal Borgarhólsskóla mánudaginn 19. september kl. 17.00
Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur fræðir um málþroska og framburð og mikilvægi örvunar á þessu sviði.
Hvernig gefa foreldrar börnum forskot á málþroska og tjáningu sem síðar leggur grunn að lestrarfærni og námi?
Sérstaklega verður kynnt aðferðafræði og rannsóknir er tengjast „Lærum og leikum með hljóðin“.
Dæmi sýnd um notkun smáforrita í kennslu og leik heima fyrir.
Efnið hentar mjög vel foreldrum barna í leikskóla og yngri aldurshópum í skóla. Sérstök tilboð verða á efni Lærum og leikum með hljóðin, fyrir áhugasama. Sjá nánar á laerumogleikum.is
Hvernig sköpum við börnum okkar bestu þroskaskilyrði fyrir mál og tal?
Skólaþjónusta Norðurþings - Aðgangur er ókeypis.