09.05.2016
Kæru foreldrar/forráðamenn
Bleikja í boði Silfurstjörnunnar í dag 9. maí 2016
Þegar Olga Gísladóttir, fyrir hönd Silfurstjörnunnar, hafði samband við matráð, Huldu Hörn og bauð skólanum okkar bleikju í matinn, var það þegið með þökkum. Bleikjan rann ljúflega niður í hádeginu og við kunnum Silfurstjörnunni bestu þakkir fyrir.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.
25.04.2016
Á morgun, þriðjudaginn 26. apríl ætla 6. bekkingar í Öxarfjarðarsskóla, Borgarhólsskóla, Reykjarhlíðarskóla og Grunnskólanum á Raufarhöfn að sameinast og kynna sér jarðhræringar í tengslum við eldgos og tengingar náttúruafla á svæðinu við goðafræði. Eitt af markmiðum er að flétta saman skemmtun og nám og vera með hópavinnu.
Við skoðum Heimskautsgerðið við Raufarhöfn, Skjálftasetrið á Kópaskeri og Gljúfrastofu. Gist verður í íþróttahúsinu í Lundi og að sjálfsögðu kvöldvaka o.fl. skemmtilegt á döfinni þar. Hulda og Laufey ætla að sjá um að taka vel á móti ferðalöngunum þegar þeir skila sér í hús og sjá um kaffi og kvöldmat.
Veg og vanda af skipulagi hefur verið í höndum Jónu Kristínar í Borgarhólsskóla en hún hefur svo verið í samráði við kennara í viðkomandi skólum. Lotta og Anka munu fylgja okkar nemendum eftir.
20.04.2016
Í dag 20. apríl er síðasti vetrardagur. Þær stöllur í eldhúsinu ákváðu að gera okkur dagamun í tilefni dagsins og voru með rjómatertur, sannkallaðar hnallþórur, í kaffitímanum. Það var líflegt í húsinu í dag. Við nutum samveru við Grunnskólann á Raufarhöfn og eins voru fulltrúi skólaþjónustu og heilsugæslu í húsinu. Ég minni á sumardaginn fyrsta, sem er frídagur, og er á morgun fimmtudaginn 21. apríl.
20.04.2016
Þakka ykkur öllum fyrir ánægjulega samveru á árshátíð sem tókst skínandi vel.
08.04.2016
Árshátíð Öxarfjarðarskóla verður í Skúlagarði fimmtudaginn 14. apríl klukkan 19:30. Einnig er stefnt á aukasýningu sunnudaginn 17. apríl klukkan 15.
18.03.2016
Páskafrí hjá grunnskóladeild er hafið og skólabílar hættir að ganga en leikskóladeildir eru opnar samkvæmt venju, en foreldrar sem nýtt hafa skólabílinn þurfa að gera aðrar ráðstafanir varðandi akstur. Kennsla hefst aftur þann 29. mars samkvæmt stundatöflu.
18.03.2016
Stefnt er á að árshátíð Öxarfjarðarskóla verði fimmtudaginn 14. apríl næstkomandi. Við urðum að flytja árshátíðina aftur um einn dag, á 14. apríl, vegna þess að tæknimaðurinn okkar er ekki á svæðinu þann 15. Á árshátíðinni verður leikritið Ronja, eftir Astrid Lindgren, sýnt. Eins og búið er að koma fram urðum við að fresta árshátíðinni vegna veikinda margra nemenda en nú erum við búin að dagsetja hana enn á ný með möguleika á aukasýningu þann 17.
15.03.2016
Stefnt er á að árshátíð Öxarfjarðarskóla verði þann 15. apríl næstkomandi. Á árshátíðinni verður leikritið Ronja, eftir Astrid Lindgren, sýnt. Eins og búið er að koma fram urðum við að fresta árshátíðinni vegna veikinda margra nemenda en nú erum við búin að dagsetja hana upp á nýtt þann 15. apríl með möguleika á aukasýningu þann 17.
12.02.2016
Björgunarsveitirnar okkar gegna gríðarlega stóru hlutverki og er borið uppi af sjálfboðaliðum. Björgunarsveitirnar taka þátt í björgun, leit og gæslu og leitar löggæslan til björgunarsveitanna þegar aðstæður sem þessar koma upp og þær koma með mannskap sinn og búnað. Björgunarsveitirnar vinna ómetanlegt starf í þágu almannaheilla í samvinnu við stjórnvöld og hafa bjargað ófáum mannslífum.
Félagasamtök sem kvenfélögin okkar og björgunarsveitirnar eru samfélaginu okkar ómetanleg.
Á myndinni má sjá félaga í Björgunarsveitinni Núpum í Öxarfirði og Stefáni úr Mývatnssveit í Dettifossútkalli.
12.02.2016
Félagasamtök sem byggja á sjálfboðaliðum, takast á við ótal verkefni og láta gott af sér leiða, eru ómetanlegir burðarstólpar í samfélaginu og í því efni langar mig til að minnast á kvenfélögin og björgunarsveitirnar.
Þann 1. febrúar var dagur kvenfélaganna á Íslandi. Saga kvenfélaga á Íslandi er merkileg og sér yfir 100 ára sögu. Í áraraðir hafa kvenfélögin okkar staðið við bakið á samfélaginu okkar og látið gott af sér leiða. Það eru ófá verkefni sem kvenfélögin taka að sér og það er ómetanlegt hversu margir eru tilbúnir til þess að starfa sem sjálfboðaliðar í félagasamtökum sem kvenfélögunum okkar. Í okkar dreifbýla og víðfeðma samfélagi, Öxarfirði, er svo margt sem væri illmögulegt ef þessara kvenna nyti ekki við. Þetta eru aðdáunarverðar konur sem leggjast á eitt við að styrkja sitt samfélag. Í gegnum árin hafa kvenfélögin í skólasamfélagi Öxarfjarðarskóla látið sér annt um skólastarfið og sýnt skólanum stuðning á margan hátt m.a. gert okkur kleyft að eignast búnað sem annars væri erfitt að setja fjármagn í. Nú síðast þennan vetur hafa kvenfélögin hér gert okkur mögulegt að kaupa skjávarpa í kennslustofu unglingastigs, miðstigs og yngsta stigs og við kunnum Kvenfélaginu Stjörnunni, Kvenfélagi Öxarfjarðar og Kvenfélagi Kelduhverfis, bestu þakkir fyrir þennan höfðinglega stuðning. Þetta gerir okkur auðveldara að miðla kennsluefni á rafrænu formi til nemenda t.d. fræðslumyndum o.fl.
Á myndinni má sjá fulltrúa kvenfélaganna í Öxarfirði með einn skjávarpanna, þær Ástu Helgu Viðar, Kvenfélaginu Stjörnunni, Sigurfljóðu Sveinbjörnsdóttur, Kvenfélagi Kelduhverfis og Ann-Charlotte Fernholm, Kvenfélagi Öxarfjarðar ásamt skólastjóra.