25.02.2014
10. bekk var boðið í heimsókn til Húsavíkur
Dóra, skólameistari FSH á Húsavík bauð 10. bekk Öxarfjarðarskóla og 10. bekk Grunnskólans á Raufarhöfn í heimsókn okkur að kostnaðarlausu, fimmtudaginn 6. febrúar. Bæði akstur og matur verður í boði FSH. Nemendur fóru úr Lundi kl. 9:00 og komu heim fyrir kl. 15:00 og komu því í tæka tíð fyrir skólaakstur.
Vel var tekið á móti nemendum og þeim kynntur Framhaldsskólinn á Húsavík.
Kveðja,
GSK
25.02.2014
Það er mikilvægt að brjóta upp venjubundna stundaskrá af og til og lífsleikni í sjálfu sér að takast á við breyttar aðstæður.
Föstudaginn 24. janúar var stórskemmtilegur rugludagur í Öxarfjarðarskóla. Öllu var snúið á hvolf fyrstu tvo tíma dagsins. Skólabílstjóranir byrjuðu á að ruglast í upphafi dags og tóku rangar stefnur en yngstu nemendurnir lögðu sig fram um að leiðrétta þá og allir skiluðu sér í skólann.
Kennarar mættu í úthverfum fötum, smóking af afa eða vinnufötum eiginmannsins, sumir höfðu gleymt íslenskunni og kenndu á sænsku og útlistuðu fyrir okkur kosti Svíþjóðar með miklum tilþrifum. Skólabílstjórarnir villtust inn í kennslustofur, lásu fyrir börnin og kenndu þeim að takast á í sjómanni. Einstakir kennarar héldu að þeir væru nemendur og höguðu sér sem slíkir. Sumir nemendanna virtust hafa gleymt að fara á fætur og voru í náttfötum eða höfðu ruglast á og farið í föt af öðrum eða farið í fötin í öfugri röð.
Nemendur sem annars töluðu íslensku, áttu það til að tala sænsku, spænsku eða taílensku. Elstu nemendur fóru í leikskólann og yngri nemendur aðstoðuðu eldri nemendur, leikskólabörn fóru í kennslustofu unglinganna ásamt nemendum í miðdeild.
Í matsal var ráðskonan með öfuga svuntu og búin að rugla allri sætaskipan en nemendur í hlutverkaleik létu það ekki rugla sig og gerðu morgunverði góð skil.
Það var setið upp á borðum, legið á gólfinu, hlustað á sögur, tekist var á í sjómanni, málin voru rædd frá ótal vinklum og mikið var hlegið. Þetta var sko alvöru rugludagur sem tókst með eindæmum vel, ekki bara orðin tóm. Við vorum meira og minna öll í hlutverkaleik og í hópnum leynast greinilega margir góðir leikarar.
Í nýrri Aðalnámskrá Mennta- og menningarmálaráðuneytis, almenna hluta, erum við minnt á að ýta ekki leiknum til hliðar. Að mikilvægt sé að hafa leikinn með í grunnskólastarfi og að leikur sé nemendum á öllum aldri sjálfsprottin leið til náms og þroska.
Höfum leikinn með, það eflir bæði huga og hönd.
Kveðja,
GSK
25.02.2014
Leikskólasel
Í dag 3. febrúar, tók leikskólasel á Kópaskeri til starfa. Guðrún Margrét Einarsdóttir leikskóla- og sérkennari og Ásta Helga Viðar halda utan um starfið þar. Leikskólaselinu er ætlað að brúa það bil sem myndast þegar skólabílar koma snemma eða til kl. 16:00 (svigrúm er til 16:15 að sækja börnin).
Börnin verða í umsjá Ástu og Gunnu Möggu frá því að þau fara í skólabíl frá Lundi og þar til þau eru sótt í Leikskólasel á Kópaskeri.
Drög að dagskrá í leikskólaseli á Kópaskeri:
• Mánudaga: leikskólastarf í leikskólaseli frá því að skólabíll kemur í þorpið rúmlega 15:00 til kl. 16:00 og foreldrar hafa svigrúm til kl 16:15 til að sækja börnin. Síðdegishressing verður til staðar fyrir börnin.
• Þriðjudaga: leikskólastarf í leikskólaseli frá því að skólabíll kemur í þorpið rúmlega 15:00 til kl. 16:00 og foreldrar hafa svigrúm til kl 16:15 til að sækja börnin. Síðdegishressing verður til staðar fyrir börnin. Samstarf við bókasafnið verður á þriðjudögum.
• Föstudaga: leikskólastarf í leikskólaseli frá því að skólabíll kemur í þorpið um 12:30 til kl. 16:00 og foreldrar hafa svigrúm til kl 16:15 til að sækja börnin. Hádegisverður og síðdegishressing verður til staðar fyrir börnin. Á föstudögum borða leikskólabörnin, kl. 11:30, áður en þau fara af stað til Kópaskers. Grunnskólabörnin tvö sem nýta skólaselið einnig munu borða þegar komið er í leikskólasel. Ráðskona ætlar að útbúa þann mat sem þarf að senda með sem nesti, þannig að hægt sé að taka með í skólabílinn. Á föstudögum mun m.a. vera lög áhersla á að nýta sér umhverfi Kópaskers s.s. fjöruna o.fl.
• Miðvikudaga og fimmtudaga er ekki leikskólasel því skólabíll er ekki að koma í þorpið fyrr en eftir kl. 16:00.
25.02.2014
Ákvað að dæla inn upplýsingum og fréttum á vefinn til að gera þær aðgengilegri. GSK.
Tillaga að leikskólaseli á Kópaskeri var samþykkt 14. janúar 2014 og er starfsemin þegar komin í gang.
03.01.2014
Nú er hafið nýtt ár og starfsfólk mætti til vinnu í dag til undirbúnings.
Kennsla hefst á ný mánudaginn 6. janúar samkvæmt stundaskrá.
Við hlökkum til að sjá nemendur endurnærða eftir jólafrí
04.12.2013
Hið árlega jólaföndur var eftir hádegi í dag. Settar voru upp fimm föndurstöðvar í húsinu þar sem ýmislegt skemmtilegt varð til. Nokkrir góðir gestir komu og áttu góða stund með nemendum.
Smellið á lesa meira til að fá slóð á myndir.
04.12.2013
Kæru foreldrar/forráðamenn
Að loknum velheppnuðum föndurdegi í dag 4. des:
Í dag skemmtu grunn- og leikskólanemendur, foreldrar, systkini, frændur og starfsfólk, sér saman við ýmis konar föndur. Það voru fléttaðar körfur, búnir til sérvettuhringar, ýmis konar jólaskraut var unnið í smíðastofu, unnar krukkur fyrir sprittkerti og að sjálfsögðu jólakort. Takk fyrir góða samvinnu í dag.
Skólaakstur úr Kelduhverfi:
Skólabílstjóri, Kristinn Rúnar Tryggvason tekur sér nokkurra daga frí eða frá og með Fimmtudeginum 5. desember og til og með þriðjudeginum 10. desember. Þessa daga mun Axel Yngvason, s. 821-1388, sjá um skólaakstur úr Kelduhverfi.
Foreldrafundurinn 28. nóvember:
Niðurstaða vefkönnunar sem gerð var meðal foreldra í foreldrasamtölum í nóvember er væntanleg á vefinn okkar.
Í könnun og fundargerð kemur fram að við deilum öll áhyggjum af fólksfækkun/barnafæð og niðurskurði/þrengingum. Niðurstöður könnunar voru jákvæðar fyrir skólasamfélagið en alltaf má eitthvað bæta og regluleg endurskoðun og umræður nauðsynlegar. Yfir 90% foreldra eru almennt ánægðir með skólann Ánægjulegt fannst okkur svar við 9. spurningu. Þar kemur fram að 100% foreldra. telja að nemendur hafi jákvætt viðhorf til skólans. 32 foreldri tóku þátt í könnuninni. Svona af gefnu tilefni (fyrir gárungana), þá þarf ekki mikinn stærðfræðing til að sjá að þau 8 foreldri sem tóku þátt í könnuninni og eru jafnframt starfsmenn, skekkja ekki niðurstöður.
Tómstundastarf:
Öðlingurinn hún Conny okkar hefur boðist til að vera með unglingunum okkar einu sinni í mánuði og munu Jóhann Rúnar Og Conny vera í samráði með fyrirkomulag.
Kveikt á jólatré:
Mánudaginn 2. desember var kveikt á jóltrénu okkar og við byrjuðum daginn á að syngja jólalög og dansa í kringum tréð í sannkölluðum jólasnjó og logndrífu.
Bekkjarkvöld hjá 6.-7. bekk á föstudaginn 6. des:
Bekkjarkvöld verður hjá miðdeild á föstudaginn kemur og ýmislegt gert sér til skemmtunar. Þær Anka og Aðalbjörg ætla að halda utan um hópinn. Nánari upplýsingar koma frá umsjónarkennara, Ann- Charlotte.
Leikskóladeild:
Til að fyrirbyggja allan misskilning vill starfsfólk leikskóladeildar koma því á framfæri að leikskólinn er opinn alla virka daga til kl 16:00 og foreldrar hafi svigrúm til kl 16:15 til að ná í börnin.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.
04.12.2013
Kveikt var á ljósunum á jólatrénu við Lund síðast liðinn mánudag. Að venju söfnuðust nemendur og starfsfólk saman við tréð strax og komið var í skólann og sungu nokkur jólalög og dönsuðu í kringum jólatréð áður en haldið var inn í skólann í hefðbundin störf.
29.11.2013
Kæru foreldrar/forráðamenn
Jólatré
Kveikt verður á jólatrénu okkar á mánudaginn kemur, 2. desember.
Föndurdagur miðvikudaginn 4. desember
Við verðum með jólaföndur eftir hádegi á miðvikudaginn 4. desember og byrjum um 12:30. Foreldrar, systkyni, ömmur og afar hjartanlega velkomnir.
Foreldrafundur
Við þökkum fyrir góðan fund í gær 28. nóvember. Fundargerð kemur síðar.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.
14.11.2013
Kæru foreldrar/forráðamenn/starfsfólk.
Haustgleði
Ég þakka fyrir ánægjulega samveru á Haustgleði og starfsfólki, foreldrum og nemendum fyrir að leggja hönd á plóginn.
Unglingadeild - Samvera og gisting föstudaginn 15. nóvember
Samvera á vegum tómstunda- og æskulýðssviðs verður á morgun föstudaginn 15. nóvember. Nemendur verða eftir í skólanum og Kristján Ingi verður, á vegum skólans með þeim til 15:00. Þá tekur foreldri, Hafsteinn Hjalmarsson (Haffi) við og verður með þeim til kl. 19:00. Aðalbjörn Jóhannsson kemur svo á vegum tómstunda- og æskulýðssviðs kl. 19:00 og verður með unglingnum til kl. 10:00 á laugardagsmorguninn. það er sem sagt heimferð um kl. 10.00 á laugardagsmorguninn. Nemendur eru búnir að semja við Huldu um eldhúsið og það verða eldaðar pítsur. Unglingarnir ætla að fara í íþróttahús, horfa á leikinn og myndir, spjalla og njóta samveru. Hafa þarf með:
• Íþróttaföt, skór og handklæði
• Tannbursta :-) og svefnpoka eða sæng
• Nemendur verða með sjoppu á staðnum.
Samvera á Raufarhöfn mánudaginn 25. nóvember
Við stefnum á að fara með nemendur á Raufarhöfn mánudaginn 25. nóvember og njóta samveru þar. Í íþróttahúsi, í sundlaug og við spil og leiki. Nánari upplýsingar síðar.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.