25.02.2014
Leikskólasel
Í dag 3. febrúar, tók leikskólasel á Kópaskeri til starfa. Guðrún Margrét Einarsdóttir leikskóla- og sérkennari og Ásta Helga Viðar halda utan um starfið þar. Leikskólaselinu er ætlað að brúa það bil sem myndast þegar skólabílar koma snemma eða til kl. 16:00 (svigrúm er til 16:15 að sækja börnin).
Börnin verða í umsjá Ástu og Gunnu Möggu frá því að þau fara í skólabíl frá Lundi og þar til þau eru sótt í Leikskólasel á Kópaskeri.
Drög að dagskrá í leikskólaseli á Kópaskeri:
• Mánudaga: leikskólastarf í leikskólaseli frá því að skólabíll kemur í þorpið rúmlega 15:00 til kl. 16:00 og foreldrar hafa svigrúm til kl 16:15 til að sækja börnin. Síðdegishressing verður til staðar fyrir börnin.
• Þriðjudaga: leikskólastarf í leikskólaseli frá því að skólabíll kemur í þorpið rúmlega 15:00 til kl. 16:00 og foreldrar hafa svigrúm til kl 16:15 til að sækja börnin. Síðdegishressing verður til staðar fyrir börnin. Samstarf við bókasafnið verður á þriðjudögum.
• Föstudaga: leikskólastarf í leikskólaseli frá því að skólabíll kemur í þorpið um 12:30 til kl. 16:00 og foreldrar hafa svigrúm til kl 16:15 til að sækja börnin. Hádegisverður og síðdegishressing verður til staðar fyrir börnin. Á föstudögum borða leikskólabörnin, kl. 11:30, áður en þau fara af stað til Kópaskers. Grunnskólabörnin tvö sem nýta skólaselið einnig munu borða þegar komið er í leikskólasel. Ráðskona ætlar að útbúa þann mat sem þarf að senda með sem nesti, þannig að hægt sé að taka með í skólabílinn. Á föstudögum mun m.a. vera lög áhersla á að nýta sér umhverfi Kópaskers s.s. fjöruna o.fl.
• Miðvikudaga og fimmtudaga er ekki leikskólasel því skólabíll er ekki að koma í þorpið fyrr en eftir kl. 16:00.
25.02.2014
Ákvað að dæla inn upplýsingum og fréttum á vefinn til að gera þær aðgengilegri. GSK.
Tillaga að leikskólaseli á Kópaskeri var samþykkt 14. janúar 2014 og er starfsemin þegar komin í gang.
03.01.2014
Nú er hafið nýtt ár og starfsfólk mætti til vinnu í dag til undirbúnings.
Kennsla hefst á ný mánudaginn 6. janúar samkvæmt stundaskrá.
Við hlökkum til að sjá nemendur endurnærða eftir jólafrí
04.12.2013
Hið árlega jólaföndur var eftir hádegi í dag. Settar voru upp fimm föndurstöðvar í húsinu þar sem ýmislegt skemmtilegt varð til. Nokkrir góðir gestir komu og áttu góða stund með nemendum.
Smellið á lesa meira til að fá slóð á myndir.
04.12.2013
Kæru foreldrar/forráðamenn
Að loknum velheppnuðum föndurdegi í dag 4. des:
Í dag skemmtu grunn- og leikskólanemendur, foreldrar, systkini, frændur og starfsfólk, sér saman við ýmis konar föndur. Það voru fléttaðar körfur, búnir til sérvettuhringar, ýmis konar jólaskraut var unnið í smíðastofu, unnar krukkur fyrir sprittkerti og að sjálfsögðu jólakort. Takk fyrir góða samvinnu í dag.
Skólaakstur úr Kelduhverfi:
Skólabílstjóri, Kristinn Rúnar Tryggvason tekur sér nokkurra daga frí eða frá og með Fimmtudeginum 5. desember og til og með þriðjudeginum 10. desember. Þessa daga mun Axel Yngvason, s. 821-1388, sjá um skólaakstur úr Kelduhverfi.
Foreldrafundurinn 28. nóvember:
Niðurstaða vefkönnunar sem gerð var meðal foreldra í foreldrasamtölum í nóvember er væntanleg á vefinn okkar.
Í könnun og fundargerð kemur fram að við deilum öll áhyggjum af fólksfækkun/barnafæð og niðurskurði/þrengingum. Niðurstöður könnunar voru jákvæðar fyrir skólasamfélagið en alltaf má eitthvað bæta og regluleg endurskoðun og umræður nauðsynlegar. Yfir 90% foreldra eru almennt ánægðir með skólann Ánægjulegt fannst okkur svar við 9. spurningu. Þar kemur fram að 100% foreldra. telja að nemendur hafi jákvætt viðhorf til skólans. 32 foreldri tóku þátt í könnuninni. Svona af gefnu tilefni (fyrir gárungana), þá þarf ekki mikinn stærðfræðing til að sjá að þau 8 foreldri sem tóku þátt í könnuninni og eru jafnframt starfsmenn, skekkja ekki niðurstöður.
Tómstundastarf:
Öðlingurinn hún Conny okkar hefur boðist til að vera með unglingunum okkar einu sinni í mánuði og munu Jóhann Rúnar Og Conny vera í samráði með fyrirkomulag.
Kveikt á jólatré:
Mánudaginn 2. desember var kveikt á jóltrénu okkar og við byrjuðum daginn á að syngja jólalög og dansa í kringum tréð í sannkölluðum jólasnjó og logndrífu.
Bekkjarkvöld hjá 6.-7. bekk á föstudaginn 6. des:
Bekkjarkvöld verður hjá miðdeild á föstudaginn kemur og ýmislegt gert sér til skemmtunar. Þær Anka og Aðalbjörg ætla að halda utan um hópinn. Nánari upplýsingar koma frá umsjónarkennara, Ann- Charlotte.
Leikskóladeild:
Til að fyrirbyggja allan misskilning vill starfsfólk leikskóladeildar koma því á framfæri að leikskólinn er opinn alla virka daga til kl 16:00 og foreldrar hafi svigrúm til kl 16:15 til að ná í börnin.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.
04.12.2013
Kveikt var á ljósunum á jólatrénu við Lund síðast liðinn mánudag. Að venju söfnuðust nemendur og starfsfólk saman við tréð strax og komið var í skólann og sungu nokkur jólalög og dönsuðu í kringum jólatréð áður en haldið var inn í skólann í hefðbundin störf.
29.11.2013
Kæru foreldrar/forráðamenn
Jólatré
Kveikt verður á jólatrénu okkar á mánudaginn kemur, 2. desember.
Föndurdagur miðvikudaginn 4. desember
Við verðum með jólaföndur eftir hádegi á miðvikudaginn 4. desember og byrjum um 12:30. Foreldrar, systkyni, ömmur og afar hjartanlega velkomnir.
Foreldrafundur
Við þökkum fyrir góðan fund í gær 28. nóvember. Fundargerð kemur síðar.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.
14.11.2013
Kæru foreldrar/forráðamenn/starfsfólk.
Haustgleði
Ég þakka fyrir ánægjulega samveru á Haustgleði og starfsfólki, foreldrum og nemendum fyrir að leggja hönd á plóginn.
Unglingadeild - Samvera og gisting föstudaginn 15. nóvember
Samvera á vegum tómstunda- og æskulýðssviðs verður á morgun föstudaginn 15. nóvember. Nemendur verða eftir í skólanum og Kristján Ingi verður, á vegum skólans með þeim til 15:00. Þá tekur foreldri, Hafsteinn Hjalmarsson (Haffi) við og verður með þeim til kl. 19:00. Aðalbjörn Jóhannsson kemur svo á vegum tómstunda- og æskulýðssviðs kl. 19:00 og verður með unglingnum til kl. 10:00 á laugardagsmorguninn. það er sem sagt heimferð um kl. 10.00 á laugardagsmorguninn. Nemendur eru búnir að semja við Huldu um eldhúsið og það verða eldaðar pítsur. Unglingarnir ætla að fara í íþróttahús, horfa á leikinn og myndir, spjalla og njóta samveru. Hafa þarf með:
• Íþróttaföt, skór og handklæði
• Tannbursta :-) og svefnpoka eða sæng
• Nemendur verða með sjoppu á staðnum.
Samvera á Raufarhöfn mánudaginn 25. nóvember
Við stefnum á að fara með nemendur á Raufarhöfn mánudaginn 25. nóvember og njóta samveru þar. Í íþróttahúsi, í sundlaug og við spil og leiki. Nánari upplýsingar síðar.
Kær kveðja,
Guðrún S. K.
06.11.2013
Á morgun, fimmtudaginn 7. nóvember, verða nemendur unglingadeildar með sína árlegu haustgleði. Í ár er þemað húsdýrin og hafa nemendur verið að vinna margvísleg verkefni sem tengjast íslensku húsdýrunum. Afraksturinn verður hægt að sjá á morgun.
Gleðin hefst í Lundi kl. 19.
Við viljum minna á starfsdag n.k. föstudag, 8. nóvember. Nemendur grunnskóla mæta þá ekki í skólann. Leikskóladeild verður opinn en það verður enginn skólaakstur.
24.10.2013
Til foreldra og forráðamanna. Það verða tónleikar fimmtudaginn 31. október, kl.18.
Einkanemendur okkar þriggja, mín, Árna og Reynis, marimba hópar og yngstastigshópar munu koma fram, s.s. allir nemendur í 1.-8. bekk og flestir hinir líka!
Við hvetjum nemendur til að mæta kl.17:30 í skólann svo hægt sé að stilla hljóðfærin og svo við vitum að allir séu komnir :)
Við bjóðum alla velkomna á tónleikana.
Efnisskráin kemur fljótlega :)
Bestu kveðjur,
Lisa Mc Master