Fréttir

Félagsvist 9. og 10. bekkjar

Í kvöld, þriðjudag 28. apríl, munu nemendur 9. og 10. bekkjar standa fyrir félagsvist í skólanum á Kópaskeri.
Byrjað verður að spila kl. 19:30 og er þátttökugjald 500 kr.
Sjoppa verður á staðnum þar sem hægt verður að kaupa kaffi, gos og sælgæti í hléi.

Ágóði rennur í ferðasjóð vegna fyrirhugaðar Danmerkurferðar í vor.

Vinningar eru í boði Símans.

Vonumst til að sjá sem flesta til að eiga saman skemmtilega kvöldstund.

Sí­ðasta fimleikaæfingin

Á miðvikudaginn, 22. apríl, var síðasta fimleikaæfing vetrarins. Aðalsteinn Örn á Víkingavatni hefur haldið utan um þessar æfingar í vetur. Þennan seinasta dag var foreldrum og öðrum sem vildu boðið að koma og horfa á og taka þátt í ýmsum æfingum með börnunum.

Hér er hægt að skoða myndir sem Fljóða tók.

Sumardagurinn fyrsti

http://oxarfjardarskoli.nordurthing.is/myndir/gallery/Vetur_07-08/Sumardagurinn_fyrsti/mynd_59.JPGÁ morgun, sumardaginn fyrsta, er frídagur í skólanum.
Við viljum minna á að í skólahúsinu á Kópaskeri verður dagskrá með líku sniði og hefð hefur komist á undanfarin ár. Þar verður sameiginleg handverkssýning nemenda grunnskólanna, eldri borgara og kvenfélagsins Stjörnunnar. Einnig verður tónlistarskólinn með sína vortónleika.
Nemendur 9. og 10. bekkjar verða með vöfflukaffi til fjáröflunar fyrir Danmerkurferð í vor.
Hvetjum alla sem geta til að mæta og sjá það glæsilega handverk sem er verið að vinna hér á svæðinu, hlýða á tónlist og fá sér smá sumarkaffi.

Hér er hægt að sjá myndir frá deginum í fyrra.

Stóra upplestrarkeppnin

http://oxarfjardarskoli.nordurthing.is/myndir/gallery/Vetur_08-09/Stora_upplestrarkeppnin/upplestrarkeppni_046.jpgStóra upplestrarkeppnin var haldin á Raufarhöfn í gær, eftir að hafa verið frestað í mars vegna veðurs. Þar mættu nemendur skólanna í norður sýslunni og reyndu með sér í upplestri.
Frá Öxarfjarðarskóla fóru þrír þátttakendur, þau Björg Dúa Guðmundsdóttir, Nareerat Kanram og Snæþór Aðalsteinsson. Að auki fóru þær systur frá Fjöllum; María Dís sem kynnti milli atriða og Þórdís Alda sem lék nokkur lög á þverflautu.
Undanfarin ár hafa nemendur af skólasvæðinu við Öxarfjörð verið í einhverjum af þremur efstu sætunum og sú varð raunin þetta árið líka.
Í fyrst sæti lenti Rósa Björg frá Grunnskólanum á Raufarhöfn, í öðru sæti lenti Snæþór Aðalsteinsson úr Öxarfjarðarskóla og í þriðja sæti lenti Rögnvaldur Viðar Friðgeirsson úr Kópaskersskóla. Við óskum þeim og öðrum þeim sem komu fram til hamingju með glæsilega frammistöðu.

Myndir frá keppninni er hægt að sjá hér
en þær tók Guðrún S. K.

Árshátí­ð Öxarfjarðarskóla


Árshátíð Öxarfjarðarskóla verður haldin í Skúlagarði í
Kelduhverfi þann 1. apríl.

Dagskráin hefst kl 19:30.
 

1.-4. bekkur flytja nokkur ABBA lög
 

5.-7. bekkur flytja Þrymskviðu (Hamarsheimt)

 
8.-10. bekkur sýna hinn víðfræga söngleik Grease
 

Kaffihlaðborð verður í hléi
 
Verð:
1500 kr fyrir fullorðna

500 kr fyrir börn á grunnskólaaldri

Frítt inn fyrir yngri

Kaffihlaðborð er innifalið í aðgangseyri

 

Félagsvist 9. og 10. bekkjar

9. og 10. bekkur munu halda félagsvist til söfnunar upp í fyrirhugaða Danmerkurferð þeirra.
Spilað verður í Skúlagarði í Kelduhverfi fimmtudagskvöldið 19. mars kl 19:30.
Veglegir vinningar í boði eftirtalinna fyrirtækja:.
 
Olís

Hvetjum alla sem eiga heimangengt og hafa gaman af að grípa í spil til að mæta.

Myndir frá öskudegi

Krakkar af skólasvæðinu við Öxarfjörð gengu í fyrirtæki á Kópaskeri og sungu. Einnig var komið við í Silfurstjörnunni á leiðinni á Kópasker. Þótt veðrið væri ekki spennandi mátti sjá furðuverur á öllum aldri, allt frá tveimur elstu árgöngum leikskóla upp í elstu nemendur grunnskóla, vaða snjóinn á milli fyrirtækja. Þegar búið var að fylla nammipokana lá leiðin í Pakkhúsið þar sem kötturinn var sleginn úr tunnunni og dansað og leikið sér. Dagurinn heppnaðist vel og var einstaklega gaman að sjá einlæga ánægju og áhuga yngstu barnanna.
Myndir úr Pakkhúsinu.

Fréttakorn Öxarfjarðarskóla

Nú heilsar fréttabréf nr. 2 á þessu ári og kominn tími til!

 

Ýmislegt hefur á daga okkar drifið að undanförnu og ætlum við að gera því nokkur skil í hér að neðan

Bollu- og blómasala

María og Magga í bollusölu í Ásbyrgi9. og 10. bekkur stóðu fyrir rjómabollu- og blómasölu í tilefni bolludags og konudags til að safna upp í fyrirhugaða Danmerkurferð. Síðast liðinn föstudag voru þau með bollukaffi hjá Ísak í Ásbyrgi og buðu fólki að kaupa blómvendi.
Á laugardaginn var svo gengið í hús með blóm á Kópaskeri og voru viðtökurnar svo góðar að allir blómvendirnir kláruðust í þorpinu nema einn sem fór í Hjarðarási. Við áttum alls ekki von á að þessir 40 vendir sem við fengum á góðu verði frá Kristínu og Sam seldust svona hratt og vel. Við verðum að biðja þá afsökunar sem bjuggust við heimsókn frá blómasölufólki en fengu ekki. Vonandi að enginn hafir lent í vandræðum vegna þess...
Í gær, bolludag, var svo bollukaffi í Bakka á Kópaskeri.

Blómvendirnir voru glæsileirVið viljum koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem styrkt hafa ferðina með einum eða öðrum hætti og tekið krökkunum vel í þeirra fjáröflunum. Sérstakar þakkir fá Ísak og Kristbjörg og Óli fyrir aðstöðu og lipurð við kaffisölur krakkanna.

Það er ljóst að þessi ferð kemur til með að verða dýrari en sú sem farin var fyrir tveimur árum. Það er því ljóst að enn vantar nokkuð upp á til að hafa upp í kostnað og þannig gera öllum nemendum 9. og 10. bekkjar fært að fara með nú á tímum efnahagsþrenginga. Það er því ánægjulegt að fólk í samfélaginu okkar skuli vilja leggja krökkunum lið.

Kærar þakkir.

Heimsókn Skákskóla Íslands og Skák í­ skólanna til Húsaví­kur

http://www3.telus.net/chessvancouver/images/chess.jpgFöstudaginn 30 janúar og laugardaginn 31 janúar nk. mun Skákskóli Íslands heimsækja okkur Þingeyinga og halda skáknámskeið fyrir börn og unglinga.  
Námskeiðið mun fara fram í sal Framsýnar-stéttarfélags að Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Námskeiðið er á vegum skákfélagsins Goðans.
Björn Þorfinnsson alþjóðlegur skákmeistari og Davíð Kjartansson skákkennari munu kenna á námskeiðinu.
 
Ekkert námskeiðsgjald verður:(breyting frá fyrri tilkynningu !) Hinsvegar verður farið með allan hópinn á Pizzuhlaðborð á veitingahúsið Sölku á Húsavík í hádeginu á laugardeginum og þurfa krakkarnir að hafa með sér pening fyrir því. (1100 krónur fyrir 9 ára og yngri og 1400 krónur fyrir 10 ára og eldri)
 
Skákfélagið mun svo bjóða þáttakendum uppá djús,gos,kex og kökur, á kaffitímum, á meðan á námskeiðinu stendur.
 
Efnt verður til fjölteflis við Björn Þorfinnsson alþjóðlegan skákmeistara kl 20:30 á föstudagskvöldið 30 janúar, sem verður öllum opið og ókeypis.
 
Það er ástæða til að hvetja börn og unglinga í sýslunni til þess að nýta sér þetta námskeið nú þegar það býðst, því ekki er líklegt að þetta bjóðist á hverju ári hér eftir.  Síðasta heimsókn skákskóla Íslands til okkar var á til Húsavíkur árið 1996, þannig að kominn er tími á heimsóknina. 
 
Æskilegt er að áhugasamir nemendur skrái síg til þátttöku, með því að hafa samband við formann skákfélagsins Goðans, Hermann Aðalsteinsson í síma 4643187 og 8213187 eða með því að svara þessum pósti.
 
Einnig verður þessi dagskrá auglýst á heimasíðu skákfélagsins Goðans fljótlega.
Slóðin þangað er: http://www.godinn.blog.is