02.12.2020
Í gær, 1. desember, voru tendruð ljós á jólatrénu á Kópaskeri að viðstöddum leikskólabörnunum, starfsfólki og þeim foreldrum sem höfðu tök á að vera með. Það var þó nokkuð rok en börnin létu það ekki á sig fá og glöddust við tréð.
01.12.2020
Í morgun, 1. desember, var kveikt á jólatrénu við skólann í Lundi. Allir nemendur grunnskólans ásamt elstu leikskólabörnunum komu saman við það tilefni og sungu nokkur jólalög. Smellið á lesa meira til að sjá mynd sem tekin var í morgun.
28.09.2020
Uppfært 29/9 kl 12:50
Búið er að gera við bilunina og því aftur hægt að ná símasambandi við skólann.
Vegna bilunar er ekki hægt að ná í nein fastlínunúmer skólans í Lundi. Ef nauðsyn er að ná sambandi bendum við á GSM númer viðkomandi starfsmanna.
18.05.2020
Í ljósi þess að þetta er fámennur skóli og nemendur ekki margir gátum við boðið foreldrum að taka þátt. Við gátum gert hátíðlegan með foreldrum, nemendum og kennurum og skólastjórnendum og haft reglur almannavarna í heiðri. Með því að hafa nóg rými var hægt að tryggja það. Við vorum með myndasýningu sem spannaði tímabil nemenda frá unga aldri til þessa tíma. Nemendur fengu blómstrandi sumarblóm í fallegum glerpottum og í stað knúsa og kossa fengu þeir kort vel merkt knúsi og kossum og svo myndir af sér ungum og krúttlegum. Nemendur töluðu til kennara og kennnarar til nemenda. Notaleg stund. Við tók nú atvinnuþema 5.-10. bekkja, dagana 14., 15. og 18. maí. Í dag 18. maí lýkur atvinnuþema og sumarleyfi tekur við. Njótið ykkar vel í sumar en farið varlega.
Í dag, 18. maí lýkur atvinnuþema. Þrátt fyrir þennan faraldur sem litar samfélagið, komust allir nemendur að í atvinnuþema. Flestir fóru í sauðburð. Leikskóladeildin á Kópaskeri tók að sér nema Báðar verslanir, Ásbyrgi og Skerjakolla, tóku að sér skjólstæðinga og Silfurstjarnan einnig.
18.05.2020
í“hefðbundin skólaslit Öxarfjarðarskóla, og útskrift 10. bekkinga, í ljósi COVID-19, tókust með miklum ágætum. Eftir hádegi, kl 13:00, tók við dagskrá sem nemendur ásamt kennurum höfðu undirbúið. Yngsta stigið var með söng og flutti ljóð, miðstig hafði undirbúið og gert stórskemmtileg myndbönd í stop motion. Unglingastigið var með stórskemmtilega framsögu þar sem nemendur þökkuðu fyrir sig og gerðu góðlátlegt grín að kennurum. Smíðakennarinn okka var til taks með gítarinn og við sumgum við undirleik hans. Einn nemandi leikskóladeildarinnar í Lundi var útskrifaður með pomp og prakt. Síðar þennan dag var svo útskrift 10. bekkinga.
18.05.2020
Mánudaginn 11. maí, fóru nemendur og kennarar, Öxarfjarðarskóla og hreinsuðu umhverfi skólans og meðfram þjóðvegi, frá Jökulsá að brúnni á Klifshaga. Að því loknu fengu nemendur og starfsfólk kleinur og safa hjá Huldu Hörn. Einnig var umhverfisfræðsla í skólanum og minnt á mikilvægi þess að maðurinn hugi að umhverfinu sínu.
07.03.2020
Keppnin var haldin í gær 6. mars, í Safnahúsinu á Húsavík.
-Í fyrstu umferð voru lesnar svipmyndir úr skáldsögunni Stormsker eftir Birki Blæ Ingólfsson. Í annarri umferð lásu þátttakendur eitt ljóð eftir Jón Jónsson úr Vör. En í þriðju og síðustu umferð fengu lesarar val um hvaða ljóð þeir vildu flytja.Tíu ungmenni tóku þátt í keppninni og öll fluttu mál sitt vel. Okkar fulltrúi, Sigurður Kári Jónsson flutti ljóðið, Til eru fræ, eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi Sigurður Kári stóð sig með miklum sóma, flutti sitt mál vel og náði verðlaunasæti, 3. sæti.
-Á myndinni má sjá verðlaunahafann, Sigurð Kára, með foreldrum sínum, Jóni Ármanni og Hildi.
-Hjartanlegar hamingjuóskir frá okkur öllum, Sigurður Kári 😊
Upplestrarkeppnin er ekki "keppni" í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.
-Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Þátttaka í upplestrarkeppninni stendur öllum 7. bekkjum landsins til boða.
Kærar kveðjur,
Guðrún S. K. og Anka.
18.02.2020
Við erum ákaflega stolt af vinningshafanum okkar honum Jóni Emil Christophssyni og óskum honum innilega til hamingju með að eiga eina af vinningsmyndum í teiknisamkeppni 4. bekkinga veturinn 2019-2020 og er honum þökkuð þátttaka af hálfu Mjólkursamsölunnar.
Jón Emil er einn þeirra 10 nemenda sem hlaut viðurkenningu í ár, og er myndin hans var í hópi þeirra rúmlega 1.500 mynda sem bárust í keppnina og mun námshópurinn hans njóta góðs af verðlaunafénu og gera sér glaðan dag.
Hér, í fréttinni, sjáum við fallegu myndina hans.
Hjartanlegar hamingjuóskir frá okkur öllum,
Jón Emil 😊
Kærar kveðjur,
Guðrún og Anka.
27.01.2020
Nú á haustönn, janúar 2020, fór af stað samvinnuverkefnið, Heimurinn. Christoph reið á vaðið með þetta samþætta verkefni en allir nemendur og kennarar taka þátt. Nemendur vinna saman í litlum hópum, þvert á aldur og þvert á námsgreinar. Allir nemendur fá hlutverk í hópnum. Eitt af markmiðum verkefnisins er vekja áhuga og forvitni nemenda á löndum heims; staðsetningu þess, höfuðborg, fána, flatarmáli, fjölda íbúa, menningu, tungumáli o.fl. Þetta hefur gengið vel og samþættir í raun margar námsgreinar s.s. landafræði, samfélagsfræði, stærðfræði, íslensku, myndmennt og þjálfar samvinnu og félagsfærni o.fl.
Mikilvægt er að skólastarf miði að því að gera nemendur virka og sjálfstæða í námi og færa um að afla sér þekkingar á eigin spýtur og veita tækifæri til að nýta hæfileika sína og gefa þeim kost á að fá endurgjöf á vinnu sína. Áhersla á alhliða hæfni nemenda krefst þess að nýttar séu fjölbreyttar leiðir til að meta hæfni nemenda og veita þeim leiðsögn í átt að settu marki.
Góður skólabragur eflir samskiptahæfni nemenda og þroska þeirra til virðingar og umburðarlyndis, jafnréttis og umgengni við aðra,umhverfi og náttúru. Viðfangsefni sem tengja námið við daglegt líf og starfsvettvang efla læsi nemenda á umhverfi sitt (Aðalnámskrá bls. 91)
Samþættingu er hægt skilgreina þannig að ákveðið viðfangsefni er tekið til meðferðar og það athugað frá mörgum hliðum. Þegar nám er skipulagt á þennan hátt leiðir það til, samvinnnu og samþættingu námsgreina og efnið skilgreint í víðu samhengi og eflir læsi nemenda á umhverfi sitt. Nemendur vinna saman í hópum að ýmsum verkefnum tengdum.
Fram kemur í Hinu ljúfa læsi eftir Rósu Eggertsdóttur (2019), að vel skipulagt samvinnunám leiði til gagnrýninnar og djúprar hugsunar og fjölbreyttra samskipta og taki einstaklingsnámi fram um flest.
15.11.2019
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í Öxarfjarðarskóla í dag föstudaginn 15. nóvember - Í kjölfar örlítillar umræðu um daginn og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson, kynnti Guðríður Baldvinsdóttir, Lóni, rithöfundur með meiru, fyrir okkur nýútkomna bók sína, Sólskin með vanillubragði. Guðríður las kafla úr bókinni. Sagan gerist í veit og margir skondnir karakterar koma fyrir í henni. Ég hvet fólk til að lesa þessa barnabók með börnum sínum. Það eru allt of fáar nútímasögur sem gerast í sveit. Við óskum Guðríði Baldvinsdóttur hjartanlega til hamingju með bókina og erum þakklát fyrir að hún skyldi gefa sér tíma til að koma til okkar. Miðdeild futti frumsamin ljóð um ísbjörninn sem á í vök að verjast vegna loftlagsbreytinga og börn sem eiga á brattan að sækja og búa við erfið kjör. Jónas Hallgrímsson var náttúrufræðingur, auk þess að vera skáld, og bjó til mörg orð sem okkur þykja sjálfsögð í dag, m.a. fluggáfaður, brandugla, hafflötur o.fl. Undirrituð hnaut um hugtakið, bringsmalarskotta, og fann ekki í fljótu bragði skýringu á hugtakinu en skýringin er komin 🙂 bringsmalarskotta er hugtak sem Jónas Hallgrímsson notaði yfir þunglyndi; Eitthvað sem lagðist þungt á brjóstið á manni, eins og draugur eða mara.
Að lokum sungum við saman. Á íslensku má alltaf finna svar.