Á föstudaginn sl. var haldin undankeppni fyrir söngkeppni Samfés á
Húsavík. Þarna mættu unglingar úr 18 félagsmiðstöðvum af Norðurlandi til að keppa um hvaða fimm atriði kæmust í
aðalkeppnina sem haldin verður í Reykjavík þann 8. mars. Alls voru nálægt 600 manns í íþróttahúsinum á
Húsavík þetta kvöld.
Krakkarnir frá félagsmiðstöðvunum voru að tínast smátt og smátt í bæinn fram eftir degi. Við úr Beisinu vorum
ásamt Raufarhafnarkrökkunum þau fyrstu á staðinn. Eftir smá afslöppun á efri hæðinni í íþróttahöllinni
röltum við á Sölku þar sem allir fengu að borða. Eftir það var frjáls tími fyrir alla nema keppendur en okkar strákar áttu
æfingu kl. 15:10. Það dróst um hátt á klukkutíma að þeir gætu byrjað en á meðan voru krakkarnir ýmist í sundi,
á búðarrápi, í höllinni eða í Keldunni. Eftir því sem leið á daginn og félagsmiðstöðvum á
svæðinu fjölgaði fór að þrengjast um í Keldunni og fór þá fólk að tínast inn í höllina.
Eitthvað seinkaði byrjun keppninnar þar sem dagskrá dagsins hafði riðlast og að auki
var ein rútan sem flutti Akureyringa í einhverju bileríi svo þeim seinkaði um rúman klukkutíma.
Keppnin hófst svo loks og það var greinilegt að krakkarnir voru komnir til að skemmta sér, því það var mikið líf og fjör
í stúkunni og kepptust menn um að hrópa nafn sinnar félagsmiðstöðvar. Öll fengu lögin góðar viðtökur hjá
áhorfendum og var gaman að sjá hversu margir voru duglegir að fagna keppendum hinna félagsmiðstöðvanna.
Strákarnir okkar í Beisinu voru síðastir
á svið. Þeir nutu góðs af því að salurinn var orðinn heitur og mikil stemmning í áhorfendum. Þeir náðu strax salnum
með sér með miklu klappi og fagnaðalátum, enda var flutningurinn hjá þeim öruggur og líflegur. Þegar þeir svo rifu sig úr bolunum
um mitt lagið ætlaði þakið að rifna af húsinu, svo mikil voru fagnaðarlætin.
Það fór svo að Beisið átti eitt af þeim fimm atriðum sem komast í aðalkeppnina í mars. Þrjú bestu atriðin fara
áfram og þar að auki eru veittar viðurkenningar fyrir athyglisverðasta flutninginn, sem Beisið fékk, og bestu framkomuna. Hinar
félagsmiðstöðvarnar sem fóru áfram voru Pleizið frá Dalvík, Gryfjan frá Grenivík, sem fékk verðlaun fyrir bestu
framkomuna, Hyldýpið frá Eyjafjarðarsveit og Himnaríki frá Akureyri.
Að lokinni keppni sá Alan Haywood, sem jafnframt var einn dómara, um að plötusnúðast og var mikið stuð á dansgólfinu.
Myndir frá Húsavík eru hér
Tengill á frétt frá keppninni á mbl.is