Fimmtudagskvöldið sl. hélt Öxarfjarðarskóli haustgleði. Þetta er orðin
árlegur viðburður, sem hófst með vorgleði en vegna ýmissa anna á vorin var ákveðið að flytja viðburðinn yfir á
haustið. Það eru nemendur í unglingadeild ásamt 7. bekk sem bera hitann og þungann af undirbúningi og utanumhaldi á þessari skemmtun og er
þetta liður í þeirra fjáröflun. Einnig hafa kennarar stutt duglega við bakið á þeim.
Auglýsingum hefur verið dreift á póstburðarsvæðið frá Kelduhverfi og út á Sléttu og gaman að sjá hversu margir koma sem ekki eiga börn í skólanum. Þátttaka hefur vaxið á hverju ári og í ár var þéttsetinn matsalurinn í Lundi.
Á föstudaginn
var samskólamót skólanna hér í norðursýslunni haldið á Þórshöfn. Við fórum með nemendur úr 7. til 10.
bekk á mótið og voru krakkarnir okkar að venju til fyrirmyndar og sjálfum sér og skólanum til sóma. Það er ekki erfitt að ferðast
með þessum krökkum og gaman þegar það gengur svona vel.
Á Þórshöfn var keppt í fótbolta og Singstar. Við fórum með tvö stelpnalið og eitt strákalið. Eldri stelpurnar
stóðu sig vel og unnu flesta leiki og hlutu bikar að launum. Í sigurliðinu voru þær Perla, Silja, Gríma, Ke og Jóhanna. Við
áttum líka sigurvegarann í Singstar, en það var Margrét Sylvía og fékk hún nýjasta Singstar diskinn í verðlaun.
Bernd Ogrodnik brúðumeistari kom og
sýndi brúðuleikrit sitt um Pétur og úlfinn í skólahúsinu á Kópaskeri í morgun. Áhorfendur voru nemendur og
starfsfólk Öxarfjarðarskóla og Grunnskólans á Raufarhöfn. Það var þétt setið í gryfjunni og mikil og góð
stemning meðal áhorfenda, enda gerði Bernd það listilega að virkja áhorfendur með. Frábær sýning í alla staði.
Hægt er að lesa um Bernd Ogrodnik með að smella hér (kynning Þjóðleikhússins) og hér (viðtal frá fræðsludeild Þjóðleikhússins)
Í byrjun og lok skólaárs hefur það verið venja að báðar deildir skólans sameinast í Lundi og eru þá yngsta- og miðdeild í sundkennslu. Að þessu sinni stóð sundlota yfir frá annari kennsluviku og fram yfir miðja þá þriðju.
Á meðan sundlotan stendur yfir er reynt að brjóta upp skólastarfið og gera eitthvað annað en liggja í bókunum. Unglingar hafa hjálpað til við sundkennsluna og verið meistarar ofan í lauginni með yngri börnunum og hefur það fyrirkomulag tekist mkjög vel. Við höfum reynt að leggja áherslu á útiveru þegar til þess viðrar og m.a. reynt að fara a.m.k. einu sinni í þjóðgarðsferð með alla nemendur, til leiks og fræðslu í þjóðgarðinum. Síðustu árin höfum við verið með þróunarverkefni í gangi sem lið í því að fræða nemendur um sína heimabyggð.
Með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan má skoða myndir frá hluta af þeirri vinnu sem fór fram á meðan
á sundlotu stóð.
Það má sjá myndir frá því þegar unglingadeildin fór í Ás og taldi og flokkaði einnota drykkjarumbúðir sem safnast
höfðu í þjóðgarðinum í sumar. Afraksturinn var tæpar 10.000 dósir og flöskur og rennur ágóðinn af því
í ferðasjóð nemenda. Ýmislegt annað en dósir voru í pokunum og margt af því miður geðslegt. Krakkarnir stóðu sig samt
eins og hetjur og létu ekki á sig fá þótt ýmislegt væri illa lyktandi og ógeðslegt.
Það eru einnig myndir frá því þegar unglingadeildin gekk um Vesturdal og Svínadal í hávaðaroki, sand- og moldfoki.
Síðan er hægt að skoða myndir úr ferðum yngri- og miðdeildar í skógræktina í Akurgerði.
Eins eru myndir frá pappírsendurvinnslu yngri- og miðdeildar og frá útileikjum yngstu deildar.
Undanfarna daga hefur
starfsfólk skólans heimsótt heimili nemenda skólans. Við höfum allstaðar fengið góðar móttökur og virðist þetta
fyrirkomulag á skólabyrjun mælast vel fyrir. Eitthvað var um að fólk væri að heiman og verða þau heimili ekki heimsótt
sérstaklega nema óskað verði eftir því. Við minnum einnig á að fólk er ávallt velkomið í heimsókn til að
ræða starfið
eða annað því tengt.
Fimmtudag og föstudag sat starfsfólk skólans námskeið sem Kristján Már Magnússon sálfræðingur hélt fyrir okkur. Kristján fór með okkur í gegnum ákveðniþjálfun og sjálfstyrkingu og samtöl og samskipti. Þetta var skemmtilegt og lærdómsríkt námskeið sem á örugglega eftir að nýtast okkur til að bæta okkur í starfi.
Nú er komið að því að skólastarf hefjist í Öxarfjarðarskóla. Skólastarf hefst 27. ágúst á venjulegum skólatíma, þ.e. kl. 08:20 í Lundi og klukkan 08:00 á Kópaskeri. Skólabílar leggja af stað frá Kópaskeri og Fjöllum kl. 07:45. Skólabíll leggur svo af stað heim frá Lundi kl. 15:00 mánudaga- fimmtudaga. Á föstudögum lýkur skóla kl. 13:40 og leggur skólabíll þá af stað 13:50. Skólahúsið á Kópaskeri verður opnað klukkan 07:50 á morgnana.
Ákveðið var að breyta út af venjunni og hafa ekki hefðbundna skólasetningu, í stað þess mun starfsfólk skólans, í samráði við heimilin, heimsækja heimilin með ýmsar hagnýtar upplýsingar um skólastarfið s.s. skóladagatal, stundatöflur og kynnum sundúthald o.fl. Í þessari heimsókn hvetjum við foreldra og foráðamenn til þess spyrja og biðja um skýringar. Þó nokkrir nýjir nemendur eru að koma í skólann og munu nemendum, foreldrum og forráðamönnum þeirra vonandi nýtast þessi fundir vel og er þetta tilvalið tækifæri til þes að koma óskum og upplýsingum t.d ef um ný netföng er að ræða á framfæri. Við stefnum á að fara í þessar heimsóknir dagana 22.- 24. sept. í þessari viku. Þetta er liður í að auka og bæta samstarf við foreldra sem við teljum mikilvægan þátt í skólastarfi. Við vonum að þið takið þessari nýbreytni vel og vonumst eftir góðu og árangursríku samstarfi við ykkur.
Umsjónarkennarar hafa sett upp innkaupalista fyrir nemendur sínar og er hægt að sjá þá með því að smella á tenglana hér að neðan.
Skólaslit Öxarfjarðarskóla voru í dag. Að venju flutti skólastjóri
ávarp og voru 10. bekkingar kvaddir. Eins voru kvaddir tveir kennarar sem nú hverfa til annarra starfa, þau Erla Dögg og Ingi Þór. Það er alltaf
sama eftirsjá af öflugum og góðum nemendum og alltaf er sami söknuður í því að kveðja 10. bekkinga þegar þau halda á
brott úr skólanum. En maður kemur í manns stað og er ekki til efa að núverandi 9. bekkingar verði öflugir 10. bekkingar á næsta
skólaári. En það er alltaf ákveðin eftirsjá í því að sjá á eftir þessu unga og efnilega fólki
úr héraðinu til framhaldsnáms.
Skólastarf í vetur gekk mjög vel. Nemendur skólans eiga hrós skilið
fyrir fyrirmyndar framkomu og hegðun hvar sem þau voru sem fulltrúar okkar.
Á fimmtudag og föstudag verða 7. og 8. bekkur í skólaferðalagi. Stefnan er sett í Skagafjörð en á leiðinni mun verða farið í hvalaskoðun á Húsavík ef veður leyfir. Í Skagafirði verður meðal annars farið í klettaklifur og flúðasiglingu.
Í byrjun júní halda síðan 9. og 10. bekkur út fyrir landssteinana í
skólaferðalag til Danmerkur. Það er einungis í annað skiptið (að því að umsjónarmaður best veit) sem nemendur
úr Lundi fara utan í skólaferðalag. Seinast var farið til Færeyja fyrir tæpum tuttugu árum, eða 1989. Nemendur hafa verið duglegir að vera
með ýmsar fjáraflanir fyrir ferðinni og eins hafa fyrirtæki á svæðinu stutt við bakið á þeim til að ferðin verði að
veruleika.
Föstudaginn 11. maí kom Elvar Bragason ásamt krökkunum sem hafa verið í tónlistarsmiðju hjá honum á Húsavík. Þau héldu tónleika fyrir krakkana í félagsmiðstöðinni í Pakkhúsinum á Kópaskeri. Einnig höfðum við boðið Raufarhafnarkrökkunum að koma og vera með,
Tónleikarnir heppnuðust mjög vel og var gaman að sjá hvað krakkarnir eru orðnir flinkir. Á eftir var smá ball þar sem Reynir sá um að vera DJ. Greinilegt var að mannskapurinn var orðinn þreyttur eftir langan dag og dró fljótt af fólki, svo ballið stóð aðeins til rúmlega 22. Vonandi að flestir hafi þó skemmt sér ágætlega.
Þriðjudaginn 15. maí fóru nemendur og starfsfólk skólans í þjóðgarðsferð í Ásbyrgi. Nemendur unglingadeildar höfðu ásamt umsjónarkennurum sínum undirbúið dagskrá í formi pósta þar sem blandað var saman fróðleik og leikjum. Póstunum var dreift um byrgið og gengu yngri deild og miðdeild í sitt hvoru lagi á milli þeirra.
Það var sérlega gaman að sjá hvað unglingarnir stóðu sig vel í sínum hlutverkum sem leiðsögumenn og leiðbeinendur. Það var greinilegt að þau tóku hlutverk sín alvarlega og sinntu þeim að alúð.
Meðal pósta var fróðleikur um danspallinn og Ásbyrgishátíðir áður fyrr. Sagt var frá Ástarhellinum við útsýnisstaðinn, sagan um Huginn og Heiðblána var sögð við Botnstjörn og farið í ýmsa leiki.